Íslensk fyrirtæki, einkum þau sem eru skráð á fleiri en einum markaði, hafa verið skortseld og hefur það vakið nokkra undran fjárfesta því almennt er erfitt að átta sig á raunverulegri skortstöðu og áhrifum þeirra.
Skortsala, það er sala verðbréfa sem fjárfestir hefur fengið lánuð í þeirri von að kaupa þau síðar aftur á lægra verði, er heimil á íslenskum verðbréfamarkaði samkvæmt skortsölureglugerð Evrópusambandsins, sem innleidd var hér á landi með lögum nr. 55/2017.
Hins vegar er svokölluð óvarin skortsala (e. naked short selling), þar sem sala fer fram án þess að tryggt sé að afhending verðbréfa geti átt sér stað, bönnuð bæði á Íslandi og á flestum þróuðum mörkuðum, þar á meðal í Evrópu og Bandaríkjunum.
Í ljósi þess að mörg íslensk félög eru nú skráð á fleiri en einum markaði, þar á meðal í Bandaríkjunum, hafa vaknað spurningar um mögulegar afleiðingar mismunandi regluverks. Þótt reglurnar um skortsölu séu að meginstefnu til samhljóða, eru framkvæmd, upplýsingagjöf og eftirlitsheimildir oft ólíkar milli markaða.
Félög innan EES lúta samevrópskum reglum, svo sem MiFID II, MAR og lýsingarreglugerðinni. Þau verða þó einnig að uppfylla skilyrði og framkvæmdareglur viðkomandi kauphalla. Þegar skráning nær einnig til markaða utan Evrópu, s.s. í Bandaríkjunum, bætast við reglur frá bandaríska verðbréfaeftirlitinu (SEC) og kröfur sem tengjast t.d. reikningsskilum og stjórnarháttum.
Samkvæmt íslenskum reglum ber að tilkynna skortstöðu til Seðlabanka Íslands ef hún nær 0,2% af útgefnu hlutafé viðkomandi félags og síðan við hverja 0,1% aukningu. Þegar staða fer yfir 0,5% skal hún jafnframt birtast opinberlega.
Þessar upplýsingar eru þó ekki birtar af Kauphöllinni sjálfri, heldur eru þær aðgengilegar á vef Fjármálaeftirlitsins. Ef grunur vaknar um ólöglega skortsölu eða markaðsmisnotkun getur Fjármálaeftirlitið gripið til aðgerða.
ViðskiptaMogginn leitaði til Kauphallarinnar sem bendir á að skortsala geti haft jákvæð áhrif á markaðinn. Með virkri skortsölu megi bæta verðmyndun, auka markaðsdýpt og draga úr líkum á bólumyndun. Skortsala getur einnig falið í sér mikilvægt „viðvörunarkerfi“ markaðarins, þar sem fjárfestar hafa betri tæki til að bregðast við neikvæðum upplýsingum.
Magnús Harðarson forstjóri Kauphallarinnar segir:
„Til þess að skortsala sé virk þarf þó að vera aðgengi að verðbréfalánum, en þar hefur innlend löggjöf verið hamlandi. Íslenskum lífeyrissjóðum, sem eru stærstu eigendur hlutabréfa á Íslandi, er óheimilt að lána verðbréf líkt og sjóðir á þróuðum mörkuðum. Kauphöllin hefur lengi hvatt til lagabreytinga sem myndu heimila slíkt og telur að það myndi stuðla að auknum þroska markaðarins, bættri áhættustýringu og tekjumöguleikum fyrir sjóðina.“
Fjárfestar hafa einnig velt fyrir sér hvernig íslensk yfirvöld og markaðsaðilar hafi yfirsýn yfir skortstöðu sem myndast á erlendum mörkuðum, svo sem í Bandaríkjunum. Þar gilda önnur tilkynningarskil og upplýsingar eru oft birtar á öðrum tímum og með öðrum hætti en á evrópskum mörkuðum. Skortur á samræmdu aðgengi að slíkum gögnum getur haft áhrif á áhættumat fjárfesta og gagnsæi í viðskiptum með íslensk félög á mörkuðum utanlands.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.