Íbúðaverð lækkaði um 0,45% í maí frá mánuðinum á undan samkvæmt gögnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) sem birtust á þriðjudag. Íbúðaverð lækkaði síðast á milli mánaða í desember síðastliðnum.
Árstaktur hækkunar íbúðaverðs hefur minnkað hratt undanfarna mánuði og mælist nú 5,7% á landinu öllu. Undanfarið ár hefur íbúðaverð á landsbyggðinni hækkað um 9,1% og um 4,6% á höfuðborgarsvæðinu. Íbúðaverð á landsbyggðinni hefur því hækkað nærri tvöfalt hraðar en á höfuðborgarsvæðinu síðastliðið ár. Mest hefur verð hækkað á fjölbýli á landsbyggðinni, samtals um 11,5%.
Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, segir að ljóst sé að meira jafnvægi sé að komast á íbúðamarkaðinn.
„Framboðið er komið inn en eftirspurnin er enn til staðar. Við sjáum að það hafa verið miklar verðsveiflur á sérbýlum og voru þær helsta ástæðan fyrir lækkun í maí,“ segir Bergþóra.
Spurð hvernig hún meti horfurnar varðandi íbúðaverð segir Bergþóra að íbúðamarkaður sé að leita í eðlilegra horf og að búast megi við að árstakturinn muni halda áfram að minnka á næstu mánuðum.
„Það voru miklar hækkanir á árstaktinum í fyrra sökum Grindavíkuráhrifanna. Þegar þeir mánuðir detta út úr mælingunni má búast við að takturinn lækki, við teljum að hóflegar nafnverðshækkanir séu í kortunum en ekki er ólíklegt að sjá verðlækkanir einstaka mánuði líkt og gerðist nú í maí,“ segir Bergþóra.
Í nýlegri þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka er því spáð að íbúðaverð hækki í ár um 6,2% á milli ára. Í greiningu Íslandsbanka segir að á næsta ári muni vera svipað um að litast á íbúðamarkaði og gerir bankinn ráð fyrir 5,3% hækkun milli ára. Breytingin yfir árin tvö er svipuð en vegna þess að mælikvarðinn er milli ársmeðaltala munar 0,9 prósentustigum á árunum tveimur.
„Þegar líða tekur á spátímann teljum við að minni verðbólga og lægri vextir muni ýta undir eftirspurn og árið 2027 hækki íbúðaverð um 6,4% milli ára. Gangi spáin eftir munu raunverðshækkanir vera nokkuð hóflegar í samanburði við hækkanir síðustu ára,“ segir í greiningu bankans.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.