Tíu teymi ungra frumkvöðla hvaðanæva úr heiminum voru heiðruð í Hörpu í gær á verðlaunahátíð Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO), sem veitti „Young Inventors Prize 2025“ í fyrsta sinn á Íslandi. Meðal lausna voru niðurbrjótanleg snjallmerki sem greina ferskleika matvæla, pokar sem hægja á þroska ávaxta, tæki sem fangar koltvísýring úr skipum, snjallir hálfleiðarar og íhlutir úr pappa í raftæki svo endurheimta megi verðmæta málma úr þeim.
Viðburðurinn fór fram að viðstöddum hátt í 300 erlendum gestum, þar á meðal forstjórum hugverkastofnana 39 aðildarlanda EPO. Ísland er aðili að EPO og sat Guðmundur Fertram Sigurjónsson stofnandi Kerecis í dómnefnd fyrir verðlaunin.
Frá Spáni komu þrír tæplega þrítugir lífefnafræðingar; Pilar Granado, Pablo Sosa Domínguez og Luis Chimeno. Þau stofnuðu saman fyrirtækið Oscillum og hafa þróað einföld snjallmerki sem breyta lit eftir því sem örverur í matvælum fjölga sér, og segja þannig til um hvort maturinn sé enn öruggur til neyslu.
„Það sést með berum augum þegar merkið skiptir um lit,“ útskýrir Luis. „Við vildum gera þetta aðgengilegt öllum, ekkert app, engin tækni, bara sjónrænt viðmót sem allir skilja.“
Hugmyndin kviknaði þegar Pablo ætlaði að elda kjöt sem virtist skemmt. „Við sögðum honum að henda því, en hann eldaði það samt – og varð ekkert veikur. Þá áttuðum við okkur á því hve miklu er hent að óþörfu.“
Teymið kynntist í háskólanámi í líftækni og sameinaðist snemma um þá sýn að nýsköpun ætti ekki aðeins að þjóna hátæknifyrirtækjum heldur einnig almennum neytendum og daglegum þörfum þeirra. „Við deildum þeirri hugsjón að vilja færa vísindin út í samfélagið og gera eitthvað raunverulega gagnlegt,“ segir Luis. Það varð upphafið að Oscillum, sem þau stofnuðu í kringum þróun snjallmerkjanna.
Tæknin byggist á lífefnafræðilegri greiningu á örverum sem valda skemmdum í mat og hefur þegar sannað sig í notkun. Tæknin getur bæði dregið úr matarsóun og fækkað matarsýkingum.
„Í Evrópu er árlega sóað um 59 milljónum tonna af mat og 23 milljónir manna veikjast af skemmdum matvælum,“ segir Luis. „Við teljum okkur geta breytt því með þessari einföldu lausn.“
„Það er erfitt að koma með lausn sem fólk skilur ekki strax,“ bætir Luis við. „En um leið og fólk sér þetta virka, þá elska þau það. Við finnum að þetta hjálpar og það gefur okkur orku til að halda áfram.“
Að sögn frumkvöðlanna var það einnig áskorun að kynna tæknina á markaði þar sem ekkert sambærilegt var til staðar. „Fólk vissi ekki hvað þetta var eða af hverju þetta væri svona mikilvægt. Við þurftum að byrja á byrjunni, útskýra notagildið, sýna niðurstöður og byggja upp traust. En á móti kom að fólk tengdi við vandamálið, allir þekkja það að henda mat haldandi að hann sé kannski í ólagi.“
Teymið vill í framtíðinni verða leiðandi á heimsvísu í þróun virkra og gagnvirkra umbúða sem auka lífsgæði neytenda og styðja við sjálfbærari matvælakeðju.
Á næstu dögum mun ViðskiptaMogginn fjalla nánar um fleiri verðlaunahafa og þeirra frumlegu lausnir.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.