Helga Dögg Flosadóttir er doktor í eðlisefnafræði og framkvæmdastjóri og meðstofnandi Atmonia, íslensks nýsköpunarfyrirtækis sem er að þróa byltingarkennda rafgreiningartækni til að framleiða ammóníak, til notkunar í áburð og sem rafeldsneyti.
Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?
Fyrir sprotafyrirtæki í djúptækniþróun er fjármögnun alltaf stærsta áskorunin, til þess að tryggja áframhaldandi rannsóknir og þróun. En við stefnum á að bjóða fjárfestum til liðs við okkur á haustmisseri. Þar fyrir utan sækjum við oft um rannsóknar- og þróunarstyrki, hvort tveggja hér innanlands og evrópska. Þegar slíkir styrkir fást eru þeir hvort tveggja, mikil innspýting í rekstur félagsins í þau verkefni sem við erum að vinna að og mikil viðurkenning á vísindalegri framkvæmd vinnunnar okkar og stefnu, þar sem aðrir sérfræðingar gefa óháð mat á umsóknina.
Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?
Ísland er smátt, það er hvort tveggja, kostur og galli. Kosturinn er að það eru stuttar tengingar í allar áttir og auðvelt að byggja upp gott tengslanet, það er auðvelt að byggja upp samstarf. Gallinn er að við erum fá og það kemur í veg fyrir mikla sérhæfingu. Einnig er einstaklega lítið um ammóníaksframleiðslu á Íslandi.
Hver eru helstu verkefnin fram undan?
Atmonia er þátttakandi í tveimur evrópuverkefnum, Verge og Firefly. Þessi verkefni eiga veigamikinn sess í okkar rekstri. Næst á dagskrá er árlegur fundur Verge sem verður haldinn hér á landi, en þá tökum við (og Háskóli Íslands) á móti öllum samstarfsaðilum okkar frá Evrópu og förum yfir þau markmið sem við höfum náð undanfarið ár. Samhliða fundinum ætlum við að bjóða almenning velkominn á kynningu á verkefninu, þann 18. júní kl. 8.30 í Grósku.
Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?
Ég er nú bara svo heppin að vinna við þróun á tækni sem ég veit að mun hafa meiriháttar jákvæð áhrif á heimsvísu þegar við höfum lokið við okkar þróunarstarf og uppskölun og mætum á markað. Það eitt og sér gefur orku og innblástur inn í starfið mitt. Hins vegar er ég líka svo heppin að hafa frábært teymi sem er gott að vinna með, en það gerir hvern dag að góðum degi.
Ég á æðislega fjölskyldu sem stendur með mér í hverju skrefi, og ég legg mikla áherslu á að búa til jafnvægi í starfi og heimilislífi.
Hver var síðasti fyrirlesturinn eða ráðstefnan sem þú sóttir?
Þegar ég skrifa þessi svör sit ég á NH3-event í Rotterdam. Hér hittast öll helstu fyrirtækin á heimsvísu sem vinna með ammóníak og stefna á sjálfbæra framleiðslu ammóníaks og notkun þess. Þetta er mikilvæg ráðstefna sem ég legg mikið upp úr að mæta á á hverju ári í þeim tilgangi að viðhalda tengslum og uppfæra þekkingu mína á því sem er að gerast á þessu sviði. Það er áhugavert að mæta árlega á sömu ráðstefnu og hitta sama fólkið og fylgjast með verkefnum sem eru fyrst kynnt sem hugmynd verða að raunveruleika. Umfjöllun um ammóníak á heimsvísu er að aukast og meðvitund um mikilvægi þessa efnis í vetnis-virðiskeðjunni er mikil.
Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýtt starf?
Þessu er erfitt að svara, starfið mitt í dag er draumastarfið mitt. Ég vil leggja mitt af mörkum til þess að koma nútímasamfélagi nær sjálfbærni. Annars þætti mér mjög spennandi að vinna sem prófessor við háskóla og stunda grunnrannsóknir á sama sviði.
Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?
Ráðstefnur, greinar, bækur, samtöl og samstarf við háskólana – allt í bland! Þar að auki finnst mér mikilvægt að muna að ef ég hlusta, þá get ég lært eitthvað nýtt frá hverri einustu manneskju sem ég hitti.
Hugsarðu vel um heilsuna?
Ég legg mig fram um að skipuleggja hreyfingu sem óaðskiljanlegan hluta lífsins. Ég hjóla í vinnuna og geri einfaldar jógaæfingar og teygjur heima á morgnana, og svo reyni ég að passa upp á hollt mataræði byggt á ferskum hráefnum.
Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?
Undanfarin ár hef ég lesið mikið eftir Brené Brown, ég hef fundið fyrir miklum innblæstri frá leiðsögn hennar um teymisstjórnun og leiðtogastörf.
Hvað myndir þú læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?
Mig hefur lengi langað að taka MBA-nám, ég held að það gæti gagnast í fyrirtækjarekstrinum.
Menntun: Menntaskólinn í Reykjavík 2003. Háskóli Íslands – efnafræði BSc 2006. Háskóli Íslands – eðlisefnafræði PhD 2011.
Störf: Háskóli Íslands – nýdoktorsstaða 2011-2012. Nýsköpunarmiðstöð Íslands, efnagreiningar 2012-2020. Hlýleg, hönnun brjóstagjafafatnaðar úr merínóull, 2014-2016. Atmonia ehf., framkvæmdastjóri 2016-2019. Atmonia ehf., rannsóknarstjóri 2019-2023. Atmonia ehf., framkvæmdastjóri 2023-núna.
Áhugamál: Útivist með fjölskyldunni er mitt helsta áhugamál. Við njótum þess að fara á skíði á veturna, kajak á sumrin og fjallgöngur allan ársins hring. Þegar ekki viðrar vel til útivistar spilum við gjarnan spil, allt frá klassískum borðspilum og yfir í D&D, eða lesum klassískar bækur saman, föndrum og sköpum.
Fjölskylduhagir: Maki: Kristmann Gíslason. Börn: Gabríel Ísar Einarsson, Aldís María Kristmannsdóttir, Erla Máney Kristmannsdóttir, Gísli Þór Kristmannsson.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.