Helga Hlín Hákonardóttir er eigandi ráðgjafarfyrirtækisins Strategíu og stjórnarmaður í nokkrum stjórnum, en á auk þess nokkra heimsmeistara- og Evópumeistaratitla í ólympískum lyftingum og hefur sett 58 Íslandsmet. Hún elskar að búa til arkitektúr í kringum allt og ekkert í lífinu og þykir „hefðbundið“ líklegasta neikvæðasta orð sem hún veit um.
Hvaða ákvörðun í starfi hefur reynst þér best – eða kennt þér mest?
Að hika ekki við að spyrja „af hverju“ eða „af hverju ekki“ og læra að segja nei. Mögulega er ég stundum með smá vesen – en það skilar þá líklega betri ákvörðun. En ef ekki er stemning fyrir því þarf maður að kafa djúpt, og þá kann eitt gott „nei“ að koma upp úr dúrnum – og þar með jafnvel annað starf eða verkefni.
Hvernig nálgast þú stefnumótun eða langtímamarkmið?
Alveg eins og þjálfun. Skýr mælanleg markmið, skipulag fyrir hlutverk og ábyrgð viðeigandi persóna og leikenda – og reglulegar mælingar á árangri. Endurskoða, forgangsraða og endurstilla svo reglulega.
Hver er mesta mýta eða misskilningur sem fólk hefur um þitt starf eða atvinnugrein?
Það geta allir orðið lögfræðingar og lært stjórnun og stjórnarhætti, en það er viðvarandi áskorun að hafa hugrekki til að hugsa og sjá hlutina frá óhefðbundnum sjónarhóli og gera eitthvað allt annað og öðruvísi.
Hefur þú einhvern tíma farið í gegnum verulega krísu í starfi? Hvernig tókst þú á við hana?
Mögulega smá dramatík að vera framkvæmdastjóri nýstofnaðs banka í bankahruninu 2008 og í stjórn WOW þegar félagið varð gjaldþrota 2019. Það er jafnvægislist að halda stóískri ró og beina orku og fókus á það sem er raunverulegt – á meðan allt er í uppnámi, ekkert virðist raunverulegt og enginn veit neitt. Gott teymi þar sem traust ríkir er síðan lykilatriði.
Hefur þú einhvern tímann þurft að endurhugsa gildin sem þú starfar eftir?
Gildi eru mikilvæg en ekki meitluð í stein. Eitt gildið mitt er „Tabula Rasa“ – „óskrifað blað“ eins og Sókrates boðaði. Alltaf tilbúin að læra og þróast og skipta um skoðun ef nýr sannleikur lítur dagsins ljós. Um leið og eitthvað er orðið „hefðbundið“ eða „alþekkt“ – þá kvikna viðvörunarbjöllur.
Hvernig byrjarðu daginn þinn?
Með espressó og dagbókinni minni. Þar skrái ég 4 atriði sem ég er þakklát fyrir og 4 fallega hluti sem fyrir augu ber, set mér svo 5 persónuleg markmið og eina tímasetta áskorun dagsins. Endurspegla gærdaginn og að lokum hvað eina sem mér er hugleikið í upphafi dags. Loks hugleiðsla, teygjur og stoðkerfisrútína.
Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnu?
Það er staðfest að ég á klárustu, skemmtilegustu, fyndnustu, frumlegustu og fallegustu dætur og barnabörn í heimi og ekkert sem mér finnst skemmtilegra en að vera með þeim. Ég á ekki séns í þau og það er líklegast það allra skemmtilegasta.
Hvað finnst þér fólk almennt ekki vita um þig?
Ég var vandræðalega trúuð sem barn og unglingur og heimspeki hefur alltaf skipt mig máli og ég pæli mikið í því hvað ég stend fyrir og hvað ekki. Svo tók ég mótorhjólapróf 17 ára og er Snigill númer 342.
Ef þú mættir bjóða einhverjum (lifandi eða látnum) í kvöldmat – hver væri það og af hverju?
John Cleese, Eddu Björgvins og Ástu Júlíu æskuvinkonu minni – held að fátt myndi koma mér nær því að deyja úr hlátri!
Hvað finnst þér vera merki um góða forystu?
Yfirburðaþekking og trú á verkefninu og stefnufesta. Af þeim sem ég hef unnið með og lært af í krefjandi verkefnum, þá deila Jón Björnsson (Krónan) og Liv Bergþórsdóttir (WOW) fyrsta sætinu, að ógleymdri Guðrúnu Ragnarsdóttur, kollegu minni hjá Strategíu.
Hvaða hluta (hljóðbók, verkfæri, græja) gætirðu ekki verið án?
Ólympískar lyftingar hafa skipað stóran sess í lífi mínu síðan 2019 þannig að ég held að lyftingastöngin mín og lóðin séu það sem ég get síst lifað án.
Hvað hefur breyst í lífi þínu síðustu fimm árin sem þú bjóst síst við?
Ef það er eitthvað sem lífið hefur kennt mér, þá er það að taka engu sem gefnu og taka öllum breytingum og uppákomum af einurð, áhuga og forvitni. Úrræðaleysi er aldrei í boði.
Menntun: 1992 stúdent frá MA. 1997 Lagadeild HÍ. 2001 próf í verðbréfaviðskiptum. 2003 héraðsdómslögmaður. Hæfnismat FME 2018 vegna VÍS og 2023 vegna Íslandsbanka.
Störf: 1996-1998 Verðbréfaþing íslands (Nasdaq á Íslandi). 1998-2000 Fjárfestingarbanki atvinnulífsins. 2000-2005 Íslandsbanki (Glitnir banki). 2005-2006 Straumur Burðarás fjárfestingarbanki. 2006-2011 Saga fjárfestingarbanki. Stofnandi og eigandi Strategíu og starfa þar sem ráðgjafi fjárfesta, stjórna og stjórnenda.
Áhugamál: Flestallt sem lýtur að hreyfingu, náttúru og ferðalögum. Ólympískar lyftingar, fjallahjól, mótorhjól, fjallaskíði, heimspeki, hugleiðsla.
Fjölskylduhagir: Alveg makalaus. Börn: Aðalborg Birta 33 ára, Úlfhildur Arna 20 og Arnhildur Ylfa 14 ára. Barnabörn: Nói 10 ára og Rán 5 ára. Konni 3 ára er cavapoo-hundur.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.