Í nýju rekstrarlíkani flugfélagsins Play þarf hver flugvél að skila að lágmarki tveimur milljónum bandaríkjadala árlega til að standa undir föstum kostnaði. Einar Örn Ólafsson forstjóri Play segir þetta vera raunhæfa tölu og í samræmi við það sem tíðkast hjá sambærilegum evrópskum flugrekendum.
„Við erum með tíu vélar í dag og fastur kostnaður er að lækka og nálgast 20 milljónir dollara. Það er markmiðið að ná jafnvægi á þeim grundvelli,“ segir Einar. Hann segir að flest flugfélög sem starfi á þessum leiguvélamarkaði hafi síðustu árin verið rekin með góðum hagnaði og að undanfarið hafi verið skortur á flugvélum sem hjálpi til. „Við höfum fylgst með félögum í þessum geira og sjáum að þau hafa verið að skila um milljón dollara hagnaði á vél eftir skatta,“ bætir hann við.
Aðspurður hvort þá sé ekki ráð að nýta allar vélar félagsins í slík leiguverkefni segir Einar það ekki vera vilja hjá félaginu. Bæði sé mikil eftirspurn eftir þeim hluta framboðs sem verður eftir á Íslandi en svo felist líka áhættudreifing í því að starfa á tveimur mörkuðum. „Við viljum ekki hafa allar vélar á þessum leiguvélamarkaði. Sólarlandaflug hefur gengið vel og við sjáum vöxt fram undan þar.“
Félagið hefur nýverið bætt við áfangastöðum á borð við Marrakech og Agadir í Marokkó og Antalíu í Tyrklandi. „Þetta eru áfangastaðir sem höfða sérstaklega til Íslendinga og eru hluti af þeirri stefnu að auka framboð á áhugaverða staði utan háannar,“ segir hann.
Spurður um hvers vegna hluthafar standi nú frammi fyrir verulegu tapi segir Einar að skýringin sé einföld: „Það hafa bara ekki verið nógu mörg tímabil þar sem reksturinn hefur skilað hagnaði. Í raun hefur eftirspurn eftir vörunni ekki verið nægilega mikil utan sumarsins.“ Hann segir að á meðan flug til Suður-Evrópu hafi verið arðbært hafi Atlantshafsflugið í gegnum Keflavík reynst rekstrinum mjög erfitt. „Það er það sem hefur dregið okkur niður.“
Til að snúa rekstrinum við hefur Play þegar hafið aðgerðir sem kynntar voru síðastliðið haust. Þar á meðal er brotthvarf frá Ameríkuflugi og fækkun leiða sem ekki hafa gengið upp. „Í fyrri aðgerðum drógum við verulega úr tengifluginu en nú erum við að framkvæma þetta til fulls. Frá og með næsta hausti hættum við alveg að fljúga til Norður-Ameríku og drögum verulega úr flugi til Norður-Evrópu.“
Þegar litið er til framtíðar segir Einar að rekstur á Íslandi haldist áfram. „Við sjáum ekki ástæðu til að breyta því. Markaðurinn hér hefur reynst okkur góður.“
Lesa má viðtalið í heild sinni í ViðskiptaMogganum.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.