Hagstofan greinir frá því í dag að landsframleiðsla á mann á Íslandi hafi verið 32 prósentum meiri en að meðaltali í Evrópusambandinu árið 2024. Í úttekt stofnunarinnar, sem byggir á samanburði við ríki ESB samkvæmt skilgreiningu ársins 2020 (ESB-27), kemur jafnframt fram að einstaklingsbundin neysla á mann hér á landi hafi verið 16% hærri en í Evrópusambandinu.
Þá var verðlag á mat og drykk að jafnaði 44% hærra á Íslandi en meðal aðildarríkja ESB á sama tímabili. Tölurnar gefa til kynna að þrátt fyrir hærri landsframleiðslu og neyslu búa Íslendingar við verulega hærra verðlag, ekki síst á nauðsynjavörum.
Upplýsingarnar voru birtar í talnaefni Hagstofunnar í dag og endurspegla nýjustu niðurstöður úr samanburði við Evrópusambandið.