Ingi Júlíusson, sem er hluti af teyminu sem stýrir uppbyggingu Framkvæmdafélagsins Arnarhvols ehf. í Vetrarmýri í Garðabæ, segir að hinn mikli fjöldi bílastæða sem fylgir húsunum gefi þeim mikla sérstöðu. „Upphaflega átti að vera bílakjallari á einni hæð en við ákváðum eftir nokkra yfirlegu að stækka hann og hafa á tveimur hæðum. Markhópurinn okkar er fólk sem hefur áhuga á útivist. Náttúran er hér steinsnar frá, Heiðmörk, Vífilsstaðavatn og að sjálfsögðu golfvöllur GKG. Þetta er dálítið eins og að búa úti í sveit.“
Vetrarmýri markast af Hnoðraholti til norðurs, Reykjanesbraut til vesturs, Vífilsstaðavegi til suðurs og golfvelli GKG til austurs.
Ingi segir að hundruð manna séu í Heiðmörk og golfi hjá GKG á hverjum degi. „Það er stór hópur fólks sem sér það sem mikil gæði að hafa slíkt umhverfi í bakgarðinum hjá sér.“
Ingi segir að samkvæmt greiningum sé fólk sífellt að sækja meira í heilsutengda búsetu og virkni.
Ingi segir að útivistinni fylgi alltaf talsverður búnaður. „Því fannst okkur áhugavert að geta boðið upp á íbúðir með frístundaskúrum sem eru um 15 fermetra geymsla með breiðum hurðum og bílskúra.“
Hann segir fasteignasala gjarnan tala um að erfitt sé að selja íbúðir sem ekki hafi bílastæði. „Við heyrum að markaðurinn vilji fleiri stæði. Auðvitað eru komin tvö ár síðan við tókum ákvörðun um þetta, og markaðaðstæður geta breyst, en við höfum trú á að þetta sé það sem fólk komi til með að vilja.“
Eins og Ingi bendir á eru til dæmis fjórar íbúðir af tuttugu á fyrstu hæð með tvö stæði og þakíbúðunum fylgja tvö stæði, bílskúr og/eða frístundageymsla.
Samtals eru ellefu bílskúrar í bílakjallaranum og fimmtán frístundaskúrar auk stæða fyrir allar íbúðir, eins og áður sagði.
Ingi segir að golfarar geti til dæmis auðveldlega geymt golfbíl í frístundaskúrnum og ekið honum beint út á völl.
Ingi bendir á að talsvert fleiri bílastæði séu í þessu verkefni en gengur og gerist. „Við erum með 1,5 stæði á íbúð, sem er tvöfalt á við það hlutfall sem tíðkast víða.“
Ingi segir að það að selja íbúðir með bílastæðum, og hafa þau ekki valkvæð, hafi verið ákveðið eftir vandlega íhugun. Framleiðslukostnaður hvers stæðis er um átta milljónir króna að sögn Inga.
Sigurður Einarsson skipulagshöfundur verkefnisins segir í myndbandi á vetrarmyri.is að það sem sé einstakt við hverfið sé hin stóra miðja á jaðri náttúru og borgar.
Þá segir hann að Vetrarbrautin liggi í sveig í gegnum svæðið og bjóði upp á nýtt sjónarhorn í hverri beygju.
Ingi sýnir blaðamanni og ljósmyndara Morgunblaðsins íbúðirnar sem eru óðum að taka á sig mynd. Hann bendir út um gluggann á skemmtilegt útsýni beint út á golfvöll sem margir eiga vafalaust eftir að heillast af. Í öðrum íbúðum má horfa í átt að Vífilsstaðavatni eða yfir Garðabæinn og alla leið út á Reykjanes.
Klæðning hússins er vönduð og lagleg eins og Ingi nefnir. Leirflísarnar litríku séu vissulega dýrari en margt annað efni en húsið verði fallegra fyrir vikið.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.