Hvernig finnurðu hálfvitann í herberginu?

Maður þekkir hálfvita á því hvernig hann kemur fram við fólk,“ sagði maðurinn. Mér fannst þetta í fyrstu ekki djúp speki en eitthvað í fasi hans fékk mig til að hlusta áfram.

„Þegar við hittum einhvern sem lítur öðruvísi út en við, hljómar öðruvísi, hegðar sér öðruvísi, elskar eða lifir lífi sínu öðruvísi en við, þá byggjast fyrstu viðbrögð heilans á ótta eða dómhörku, eða hvoru tveggja. Þetta er þáttur í þróun mannsins. Við lifðum af, sem dýrategund, með því að vera tortryggin gagnvart því sem er okkur ókunnugt.

Til þess að geta sýnt náunganum manngæsku þurfum við að geta lokað á þetta dýrslega eðli og neytt heilann til þess að nota aðrar brautir. Samkennd og samúð eru tilfinningar sem hafa þróast með manninum á síðari stigum. Þær kalla á vitsmunalega getu til líta framhjá frumhvötum okkar.“

Þá fór hann yfir það að á undanförnum árum hefði samfélagið víða þróast á þann veg að valdamikið fólk fari fram með því fordæmi að horfa á þau sem minna mega sín sem ekkert annað en þverbita í stiganum upp á toppinn. Það að koma illa fram við aðra sé álitið styrkur en samkennd merki um veiklyndi.

Þegar fólk hegði sér með þessum hætti hafi það hins vegar fallið á prófinu um hinn þróaða mann. Slíkir einstaklingar hafi ekki þróað heila sinn til þess að horfa lengra og framhjá frumhvötunum. Ekki þróað nýjar brautir í heilanum til þess að yfirstíga fyrstu viðbrögð frumheilans, um ótta og dómhörku. Hugsunarháttur þeirra og lausn við vandamálum skorti því ímyndunarafl og sköpunargáfu þeirra sem þróað hafi með sér samkennd.

Að lokum sagði hann að eftir öll sín ár í stjórnmálum og viðskiptum hefði sér orðið ljós sá samnefnari að góðhjartaðasta manneskjan í herberginu væri alla jafna einnig sú gáfaðasta.

Vísunin í hálfvitann var sem sagt vísun til þess að nýta ekki alla getu heilans, við skoðanamyndun og úrlausn mála.

Gamla, góða skelin

Áður en við förum fram úr okkur í túlkun á þessum orðum eða því hvað ég er að hugsa þegar ég set þau á blað vil ég bara segja að ég er ekki að tala fyrir inngildingu erlendra glæpamanna eða að kalla öll sem hafa áhyggjur af hinum ýmsu málum hálfvita. Ég er að tala fyrir því að þegar við hittum fólk sem lítur öðruvísi út en við, hljómar öðruvísi, hegðar sér öðruvísi, elskar eða lifir lífi sínu öðruvísi en við, þá stöldrum við við varðandi viðbrögð okkar og spyrjum okkur hvort um raunverulega ógn sé ræða. Er mögulega gamli heilinn með yfirhöndina að óþörfu? Útlendingar, samkynhneigðir, fólk sem upplifir sig sem annað kyn, múslimar, örvhentir... Er það ekki í raun það sem skelin geymir sem skiptir máli?

Blómlegt

Fólki líður betur þegar það fær að vera það sjálft. Fólk sem líður vel er líklegra til að koma betur fram við hvert annað. Samfélag þar sem fólk kemur vel fram við hvert annað er gott samfélag að búa í. Öruggara samfélag. Blómlegra samfélag. Fyrirtæki njóta líka góðs af því að fólki sé tekið eins og það er á vinnustaðnum.

Endalausar rannsóknir hafa sýnt að fólk sem líður vel í vinnunni er betri starfskraftar. Það leggur meira á sig í verkefnum sínum og fyrir vinnustaðinn, þegar upp á vantar. Það er ólíklegra til að taka veikindadaga og til að hætta. Allt eru þetta atriði sem við við viljum sjá hjá starfsfólki okkar. Atriði sem skapa sterk og arðbær fyrirtæki.

Sem sagt. Dæmum fólk af verðleikum sínum en ekki af skelinni. Kærleiki í hversdeginum er nokkuð sem við græðum öll á.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK