Fornbókabúð Fróða var ein elsta verslun Akureyrar en hún var til húsa í Listagilinu í tæp 40 ár. Hjónin Ren og Stu Gates höfðu rekið búðina í fimm ár í fyrra þegar ljóst varð að leigusamningur yrði ekki endurnýjaður.
„Akureyri yrði fátækari án fornbókabúðar,“ segir Stu í samtali við blaðamann Morgunblaðsins. „Okkur fannst við hafa ákveðna skyldu við bæinn, fólkið og eiginlega allt Ísland af því að við erum með bækur sem fást hvergi annars staðar. Í þessum gömlu, rykföllnu bókum er saga.“
Fornbókabúðin er því flutt í Strandgötu 11b undir nýju nafni, Svartar bækur, en Stu segir nafnið Fróða vera bundið staðsetningunni í Listagilinu. Nýja nafnið er sótt í bresku gamanþættina Black Books sem fjalla einmitt um tvo menn sem reka fornbókabúð.
Ren og Stu hafa húsnæðið út næsta sumar, en framtíðin er óljós. Þeir vilja ekki færa búðina á netið, en gætu neyðst til þess.
Reksturinn á nýjum stað og undir nýju nafni segja Ren og Stu ganga betur en þeir hafi búist við þó að viðskipti hafi minnkað töluvert. „Fólk veit bara ekki af okkur hér. Við auglýsum okkur en það tekur tíma að láta orðið berast,“ segir Stu.
„Þegar við vorum í Fornbókabúð Fróða komu samt reglulega Akureyringar sem sögðu: Ó, ég vissi ekki að það væri bókabúð hér, þó búðin hafi verið þar í 40 ár,“ bætir Ren við.
„Hin staðsetningin var miklu betri, þegar fólk gekk Gilið átti það leið hjá,“ segir Stu. „Þar gátum við líka verið með stórt skilti. Hér erum við smá úr leið, falin. Við höfum reynt að fá leyfi til að setja skilti á Strandgötu en við höfum ekki fengið svar frá Akureyrarbæ.“
Íslendingar eru nú um 90% viðskiptavina en Stu segist þekkja ferðamenn sem komi af skemmtiferðaskipum frá ferðamönnum sem dvelji á landinu. Ferðamenn af skipunum séu ólíklegri til að versla og kvarti frekar yfir verði.
Ren og Stu segjast þakklátir Akureyringum fyrir að taka búðinni opnum örmum. Þeir séu með marga fastakúnna. Af um það bil 35 þúsund bókum búðarinnar selji þeir mest af ljóðabókum og heimspekibókum. Erfitt sé þó að spá fyrir um hvaða bækur fólk vilji kaupa.
„Það er mikill áhugi á andlegum málum, dulspeki, spíritisma og göldrum. Það er ekki á mörgum stöðum sem hægt er að kaupa bækur um það svo þær seljast vel hjá okkur. Bækur um rúnir líka,“ segir Stu.
„Það var aldrei planið að flytja til Íslands og opna bókabúð,“ segir Stu en þeir Ren fluttu til Akureyrar frá Bretlandi. „Við unnum tvö sumur á hóteli og hugsuðum, við gætum alveg eins gert þetta á Bretlandi. Okkur leið ekki eins og við værum hluti af bænum. Þegar við tókum yfir reksturinn á Fróða fórum við hægt og rólega að verða hluti af samfélaginu á Akureyri.“
Ren og Stu hafa staðið fyrir ýmsum viðburðum í bókabúðinni, til dæmis les Stu í lófa og tarotspil. Einu sinni í mánuði reyna þeir að vera með „open-mic“ kvöld þar sem fólk getur lesið ljóð, búta úr bókum eða flutt tónlist.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.