Eins og Fernando Costa forstjóri Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði útskýrir í samtali við ViðskiptaMoggann þá hefur Alcoa Fjarðaál haft margháttuð áhrif á nærumhverfi sitt. „Í fyrra urðu 44 milljarðar króna eftir í landinu í formi skatta, launa og innkaupa,“ segir Costa og ítrekar að áhersla sé lögð á að versla sem mest í heimabyggð.
Hann segir að Alcoa hafi varið nærri fimm milljörðum króna í styrki til samfélags- og innviðaverkefna síðan 2003, aðallega á Austurlandi. „Styrkir síðasta árs námu um 100 m.kr. en sem dæmi styrkti Alcoa Foundation verkefni um geðræktarmiðstöð á Austurlandi um 30 milljónir og yfir 20 m.kr. fóru í íþróttastarf.“
Þá bendir Costa á að laun í Fjarðabyggð hafi verið undir landsmeðaltali áður en verksmiðjan var reist en hafi verið yfir meðaltali síðan. „Meðallaun í álverinu eru um 20% hærri en meðallaun í landinu.“
Þá hefur íbúafjöldi Austurlands vaxið um 18% frá 2003 og á Reyðarfirði búa nú meira en tvöfalt fleiri en áður en verksmiðjan var reist.
Alcoa Fjarðaál hóf framleiðslu í aprílbyrjun 2007 og var hún komin í fulla afkastagetu í ágúst 2008. Framleiðsluheimild álversins er allt að 360 þúsund tonn á ári samkvæmt starfsleyfi. Á árinu 2024 framleiddi Alcoa Fjarðaál 340.826 tonn eins og Costa útskýrir. „Við höfum smá svigrúm til að auka framleiðsluna.“
570 störfuðu hjá fyrirtækinu árið 2024. Auk þeirra vinna að jafnaði um 250 verktakar á vegum annarra fyrirtækja í álverinu eða á lóð álversins.
Costa ítrekar jákvæða ímynd álsins sem hægt er að endurvinna út í hið óendanlega.
Costa segir að mælingar sýni að 93,7% íbúa á Austurlandi telji að álverið hafi jákvæð áhrif á búsetuskilyrði í fjórðungnum. Ástæða sé til að vera stoltur af því. „Við erum í góðu sambandi og samtali við nærsamfélagið og það skilar sér. Hér vinna líka 20% alls vinnuafls í nágrenni við álverið, þannig að samfélagið litast töluvert af vinnustaðnum. Þetta er ánægður og jákvæður hópur. Við erum lítið samfélag þar sem allir þekkja alla.“
Costa segist hafa fengið spurningar á þessu ári um hvort Alcoa, sem er bandarískt fyrirtæki, hafi dregið úr áherslu sinni á jafnrétti, í ljósi vendinga í bandarískum stjórnmálum. Hann segir að svo sé ekki. Alcoa gefi þar hvergi eftir og starfræki ýmsa réttindahópa fyrir bæði fólk með fötlun, fyrir ólíka kynþætti, fyrir málefni hinsegin fólks og sérstakt tengslanet fyrir konur innan Alcoa-samsteypunnar. „Við stöndum sterk og sjálfstæð og höfum traust gildi hér eftir sem hingað til,“ segir Costa.
Áður en hann kom til Íslands vann hann fyrir Alcoa bæði í Brasilíu og Bandaríkjunum. „Ég er frá Brasilíu en er líka bandarískur ríkisborgari og hef búið í landinu síðan 2015, eða þar til ég kom til Íslands.
Ég hóf ferilinn hjá Alcoa í Brasilíu og fetaði þar í fótspor föður míns. Ég flutti í fyrsta skipti með fjölskyldunni vegna starfa föður míns hjá Alcoa þegar ég var þriggja ára. Síðan þá hef ég flutt nokkrum sinnum innan Bandaríkjanna starfsins vegna og nú er ég á Íslandi,“ segir Costa og brosir.
Spurður um muninn á Íslandi og öðrum starfsstöðvum segir forstjórinn Ísland vera sér á báti. „Það eru nokkrar ástæður fyrir því. Aðalástæðan er fólkið sem er svo jákvætt og ánægt. Þú hittir aldrei manneskju sem er í slæmu skapi. Það er mikill kostur. Þá er verksmiðjan flott og staðsetningin sömuleiðis.“
Alcoa Fjarðaál er fyrsta álverið sem Costa rekur en stærsta einingin sem hann rak áður fyrir Alcoa var 300 manna prófílverksmiðja.
„Ég elska Ísland. Hér er frábært að vera. Það var mjög góð ákvörðun hjá okkur fjölskyldunni að koma til landsins. Við njótum þess að vera úti í náttúrunni og göngum reglulega á fjöll. Strákarnir mínir, sem eru sex ára og átta ára, eru orðnir altalandi á íslensku og búnir að eignast fullt af vinum. Við njótum augnabliksins og það er ekkert fararsnið á okkur,“ segir Costa að lokum.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.