Hið ljúfa líf er vikulegur lífstílsdálkur ViðskiptaMoggans
Þefskynið hlýtur að vera það skilningarvit sem nær hvað dýpst ofan í undirmeðvitundina. Lesendur þekkja það örugglega hvernig ilmur getur fært fólk langt aftur í tímann, eða til fjarlægra slóða; rétti ilmurinn fær mann til að kikna í hnjánum og vera til í hvað sem er, en fráhrindandi ilmur – með tengingu við slæmar minningar – getur framkallað hnút í maganum eða eitthvað þaðan af verra.
Ég get t.d. ekki að því gert að ég tortryggi fólk sem notar ilminn Le Male frá Jean Paul Gaultier, einfaldlega vegna þess að ég tengi þennan klassíska herrailm við afar fráhrindandi manneskju sem ég hafði kynni af fyrir rösklega aldarfjórðungi.
En svo eru líka undarlegustu ilmir sem ég fæ ekki nóg af. Ég get t.d. varla verið sá eini sem þykir gott að koma inn í byggingu í smíðum og finna anganina af sementi, sandi og möl. Ég skil ekki heldur að íbúar í Þingholtunum skuli ekki hafa mótmælt á sínum tíma þegar Ölgerðin flutti ölsuðuhús sitt af Njálsgötu, hér um árið. Ég sótti bæði grunn- og menntaskóla í miðbænum og minnist þess að vera þar á flakki á köldum vetrardögum og finna sæta og hlýja anganina af bjór- og maltölsframleiðslunni sem lagðist stundum yfir byggðina. Þvílík fríðindi sem það hljóta að hafa verið fyrir íbúana á svæðinu að fá þennan góða ilm inn um gluggann, rétt eins og það eru fríðindi fyrir nefið að búa í næsta húsi við gott bakarí.
Arkitektar og markaðsmenn sem vita sínu viti gera sér grein fyrir hversu sterk áhrif ilmir geta haft á fólk og gæta þess vandlega að „hanna“ rétta angan fyrir ólík rými og virkja undirmeðvitund fólks. Frægasta dæmið um úthugsaða ilmhönnun eru Disney-skemmtigarðarnir, sem nota tiltekna ilmi fyrir tiltekin svæði. Á „aðalgötunni“ sem liggur inn í skemmtigarðinn má greina sæta og rjómakennda angan, og á öðrum stöðum eru tæki sem úða út í loftið t.d. kökuilmi eða angan af reykelsum, eftir því hvers konar andrúmsloft á að skapa. Hvert Disney-hótel hefur líka sína angan; eitt hótelið gæti lyktað af ávöxtum og það næsta af ferskum jurtum. Anganin á helst að vera svo væg að fólk varla tekur eftir henni, en hughrifin skila sér samt.
Annað frægt dæmi er Starbucks, sem úðar kaffiangan út í loftið til að auka á upplifun viðskiptavina sinna, og sagt er að bæði Deloitte og KPMG hafi látið hanna ilmi sem notaðir eru í biðstofum og fundarherbergjum til að róa taugatrekkta stjórnendur sem eiga þangað erindi. Lesendur sem hafa fundið greinilega angan af gúmmísólum og leðri þegar stigið er inn í íþróttavöruverslun Nike eru ekki bara að finna ilminn af vörunum sem raðað hefur verið í hillurnar, heldur er um að ræða sérhannaða og úthugsaða ilmupplifun sem á að fá fólk til að kaupa sér enn eitt parið af strigaskóm.
Fyrir nokkrum mánuðum lét ég það eftir mér að kaupa ilminn Baraonda frá Nasomatto, einmitt vegna þess að angangin framkallar notalegar minningar, og svipar að sumu leyti til malt-tónanna sem bárust frá ölsuðuhúsinu í Þingholtunum. Það er líka eitthvað við þennan ilm sem minnir mig á lyktina af bjór sem sullast hefur niður á spænskum bar og þornað í heitri sólinni, og færir mig aftur til ársins 1987 eða 1988 þegar ég var sex eða sjö ára gamall ljóshærður strákpatti í sumarfríi á Mallorca og lífið snerist um „Törtles“, Nintendo og barnatímann á laugardagsmorgnum.
Ég verð að undirstrika að Baraonda minnir á þessa angan sem ég hef svona sterka tengingu við, en ilmvatnið sjálft lyktar auðvitað ekki eins og túristabúlla á Sa Coma. Þessi sæti ilmur hefur greinilegan áfengiskeim, sem réttast væri að bera saman við viskí eða romm, en saman við það fléttast alls konar blæbrigði, krydd og ávextir, og væri nær að líkja blöndunni við bragðið af mangó chutney.
Nasomatto er tiltölulega ungt ítalskt ilmhús, stofnað árið 2007 af Alessandro Gualtieri sem hannaði ilmi fyrir Versace, Helmut Lang, Diesel og Fendi áður en hann setti eigið merki á laggirnar. Nasomatto sló fljótt í gegn fyrir frumlega og ljúffenga ilmi, en merkið er frægast fyrir Black Afgano sem er þétt og dökk bomba sem blandar saman trjákvoðu, tóbaki, kaffi, kannabis, reykelsi og viðlíka tónum.
Baraonda er aftur á móti tiltölulega léttur og sætur ilmur í samanburði, og ætti að höfða til þeirra sem hafa t.d. gaman af Tobacolor frá Dior eða Angel‘s Share frá Kilian. Sjálfur er ég ekki alveg viss um hvort ég sé að verða þreyttur á Baraonda eftir að hafa notað ilminn nokkrum sinnum yfir þriggja mánaða tímabil, en góðu fréttirnar eru þær að þó svo að ilmirnir frá Nasomatto séu hlutfallslega dýrir – á 130 evrur flaskan – þá eru ekki nema 30 ml í hverri pakkningu og tekur flaskan því ekki mikið pláss uppi í hillu eða ofan í tösku.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.