Eitt frægasta og sigursælasta körfuboltalið heims, Los Angeles Lakers, hefur nú skipt um meirihlutaeiganda í einum stærstu íþróttaviðskiptum sögunnar. Buss-fjölskyldan, sem hefur stýrt félaginu frá árinu 1979, hefur selt um 66% eignarhlut sinn í Lakers til bandaríska fjárfestisins Marks Walter, forstjóra TWG Global og meðeiganda í hafnaboltafélaginu Los Angeles Dodgers. Söluverðið fyrir hlutinn nemur um 6,6 milljörðum bandaríkjadala, sem jafngildir um 825 milljörðum króna.
Samkvæmt Forbes var Lakers metið á 7,1 milljarð dala í lok síðasta árs en er skv. sölunni 10 milljarða dala virði eða um 1.250 milljarða króna.
Jerry Buss keypti félagið árið 1979 fyrir 67,5 milljónir dala og lagði hann grunninn að sigursælustu árum liðsins og tíu meistaratitlum þess. Buss-fjölskyldan heldur eftir 15% hlut og Jeanie Buss, dóttir Jerrys, mun áfram gegna stöðu forseta liðsins innan NBA, sem tryggir áframhaldandi áhrif fjölskyldunnar í rekstri félagsins.
Viðskiptin tryggja Lakers sess á meðal dýrustu íþróttafélaga heims, en aðeins tvö NBA-lið eru metin hærra; Golden State Warriors á 9,4 milljarða dala og New York Knicks á 7,5 milljarða dala.
Borið saman við aðrar íþróttir má nefna knattspyrnu þar sem spænska liðið Real Madrid er metið hæst, á um 6,75 milljarða dala. Í bandarískum fótbolta eru Dallas Cowboys metnir á um 10,1 milljarð dala, sem er álíka og söluviði Lakers. Í hafnabolta eru New York Yankees verðmætastir, metnir á um 7,6 milljarða dala.
Salan á Lakers endurspeglar þróun í atvinnuíþróttum þar sem fjárfestingarsjóðir, tæknifjárfestar og stórir einkaaðilar sækja sífellt meira inn í íþróttageirann með von um stöðugan vöxt í virði, tekjum og alþjóðlegum áhrifum. Það sem áður var rekstur knúinn áfram af ástríðu einstakra eigenda og fjölskyldna, er nú í vaxandi mæli hluti af viðskiptaneti alþjóðlegra fjárfesta.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.