Laxeldisfyrirtækið Laxey í Vestmannaeyjum náði í dag mikilvægum áfanga í starfsemi sinni þegar fyrsti hópur stórseiða var afhentur samstarfsaðila félagsins. Afhendingin markar upphaf að reglubundinni sölu á stórseiðum, sem er liður í tvíþættu tekjulíkani félagsins.
Fram kemur í tilkynningu að samhliða framleiðslu á laxi til manneldis hyggst félagið nýta hluta af framleiðslugetu sinni til ræktunar og sölu á hágæða stórseiðum til annarra laxeldisfyrirtækja.
Afhending stórseiðanna fór fram með dælingu beint úr stórseiðahúsi Laxey yfir í brunnbát samstarfsaðilans. Fyrirtækið segir afhendinguna marka upphaf að nýjum kafla í rekstri þess, þar sem blandað tekjulíkan, aukin dreifing og fjölbreytt þjónusta styrkir bæði eigin starfsemi og rekstrargrundvöll samstarfsaðila í laxeldisgreininni.