Innlán heimila jukust um 83 milljarða á fyrstu fjórum mánuðum ársins en til samanburðar var heildareftirspurn í tilboðsbók A í útboði Íslandsbanka 87 milljarðar. Kaup almennings jafngilda því innlánaaukningu fjögurra mánaða eða tæplega 5% af innlánum heimilanna. Þetta kemur fram í greiningu Akkurs – greiningar og ráðgjafar. ViðskiptaMogginn leitaði til Alexanders Jensen Hjálmarssonar stofnanda Akkurs og Hafsteins Haukssonar aðalhagfræðings Kviku.
Hafsteinn segir að þegar vaxtarófið verður niðurhallandi, þá verði skammtímaávöxtunarkostir á borð við innlán sömuleiðis álitlegri og soga til sín fjármagn.
„Við höfum því séð hliðrun í innlán úr öðrum eignaflokkum, til dæmis skuldabréfum og hlutabréfum. Heimilin eiga töluvert meiri innlán en ætla mætti að þau hefðu lyst á í eðlilegu árferði miðað við sögulega þróun, en ástæðan fyrir því er einkum háir innlánsvextir um þessar mundir,“ segir Hafsteinn.
Hann bætir við að það sé ákveðin áhætta fyrir hagkerfið, enda sé hugsanlegt að þessi innlánahengja leiti í neyslu eða inn á aðra eignamarkaði þegar vextir lækka með tilheyrandi þrýstingi á verðlag.
„Þetta verður líklega ekki ráðandi þáttur við næstu vaxtaákvarðanir, en gæti takmarkað svigrúm Seðlabankans til vaxtalækkana þegar fram líða stundir,“ bætir Hafsteinn við.
Alexander segist aðspurður ekki hafa náð utan um það af hverju innlánin hafi aukist jafn mikið og raun ber vitni undanfarið.
Hann bætir við að gögnin sem búa að baki séu langt í frá fullkomin.
„Það vantar upplýsingar um dreifingu, til dæmis hvort um er að ræða fáa eignamikla aðila eða hvort vöxtur innlána sé almennur. Eins eru aðeins gögn um eignir fólks í sjóðum aðgengileg en torsótt að nálgast upplýsingar um hlutabréfaeign almennings,“ segir Alexander.
Hafsteinn tekur í sama streng og segir að mjög erfitt sé að rekja nákvæmlega hvað veldur vexti innlána heimilanna frá mánuði til mánaðar.
„Veigamesta skýringin er líklega sú að heimilin hafa tekið meira að láni en þau hafa greitt upp á fyrstu fjórum mánuðum ársins, sem býr til ný innlán í kerfinu. Þótt vextir á innlánum hafi lækkað undanfarið, þá eru þeir enn nokkuð háir í samanburði við síðustu 15 ár,“ segir Hafsteinn.
Hann bætir við að heimilin hafi líklega ennþá verið að fá greiddar meiri vaxtatekjur en þau greiða sjálf af skuldum sínum á fyrsta fjórðungi, sem einnig leiðir að öðru óbreyttu til hækkunar innlánastöðu þeirra.
„Þá er ekki hægt að útiloka að launahækkanir í byrjun árs og hliðrun í eignasöfnum skýri einhvern hluta aukningarinnar,“ segir Hafsteinn.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.