Rekstrartekjur Ísbúðar Vesturbæjar á síðasta ári námu um 583 milljónum króna. Hagnaður félagsins nam 12 milljónum króna. Þetta kemur fram í ársreikningi ísbúðarinnar.
Jukust rekstrartekjur félagsins því aðeins lítillega milli ára, en þær námu um 557 milljónum, árið þar áður. Hagnaður félagsins dróst þó saman um tæplega helming en hann nam 23 milljónum árið 2023.
Stærsti útgjaldaliður rekstursins voru launatengd gjöld, en þau námu um 269 milljónum. Námu eignir félagsins um 85 milljónum, en eigið fé var um 66 milljónir og skuldir um 18 milljónir.
Í skýrslu stjórnar kemur fram að óvissa á mörkuðum erlendis hafi haft í för með sér verðhækkun á hráefni og að enn sé töluverð óvissa um þróun heimsmarkaðsverðs í tengslum við vaxandi átök í heiminum. Þá hyggst félagið ekki greiða út arð.