Hluthafafundur Íslandsbanka, sem haldinn er í dag kl. 16, mun fjalla um tillögur um breytingar á starfskjarastefnu bankans. Með breytingunum er stjórn bankans veitt aukið svigrúm til að umbuna starfsfólki fyrir árangur og tryggja að hagsmunir starfsfólks, hluthafa og bankans fari saman.
Samkvæmt nýrri starfskjarastefnu fær stjórn bankans heimild til að setja á fót sérstakt kaupaukakerfi og kaupréttaráætlun fyrir allt fastráðið starfsfólk bankans, með þeim skilyrðum sem lög og reglur kveða á um.
Í kaupaukakerfinu felst meðal annars að allt að 15% starfsfólks, sem hefur mest áhrif á rekstur og tekjur bankans, getur fengið árangurstengdan kaupauka sem nemur allt að 25% af árslaunum, að hluta til greiddan í formi hlutabréfa. Aðrir starfsmenn geta fengið kaupauka sem nemur allt að 10% af árslaunum.
Kaupréttaráætlunin heimilar sömuleiðis fastráðnu starfsfólki að kaupa hlutabréf í bankanum á hagstæðum kjörum, að hámarki fyrir 1,5 milljónir króna á ári, með þeim skilyrðum að starfsfólk haldi hlutabréfunum í minnst tvö ár frá nýtingu kaupréttar.
Áætlaður árlegur kostnaður vegna kaupaukakerfisins getur numið allt að 10% af launakostnaði bankans og vegna kaupréttaráætlunarinnar á bilinu 0,1-2,5% af launakostnaði.
Samkvæmt því sem kemur fram í framlögðum gögnum eru breytingarnar liður í því að efla árangursdrifna menningu, styrkja langtímahagsmuni bankans og starfsfólks og stuðla að stöðugum og sjálfbærum rekstri.