Nýskráningar fólksbíla voru 7.886 talsins fyrri hluta ársins og voru þar af 2.032 þeirra í júnímánuði. Um 24,1% aukiningu er að ræða í samanburði við sama tímabil í fyrra.
Af þessum tæplega 8.000 nýskráningum eru 2.283 rafmagnsbílar en nýskráning þeirra hefur tekið við sér eftir að hafa dregist saman í fyrra. Um er að ræða 140% aukningu á nýskráningum rafmagnsbíla það sem af er ári í samanburði við sama tíma í fyrra.
„Fjölgun rafmagnsbíla hefur gegnt lykilhlutverki í þeirri aukningu sem hefur orðið í nýskráningum fólksbíla á milli ára en á sama tíma hefur nýskráningum hefðbundinna bensín- og dísilbíla fækkað,“ segir í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu.
29% af nýskráðum fólksbílum á fyrri hluta árs eru rafmagnsbílar og 25% eru tvinnbílar, eða svokallaðir hybrid-bílar. Hlutdeild bensín- og dísilbíla nam 24% samanlagt.
Mesta fjölgun nýskráninga milli ára er hjá einstaklingum en sú fjölgun nemur 52,5%. Það sem af er ári hafa 2.484 nýir fólksbílar verið skráðir á einstaklinga. Um það bil 60% þeirra bíla voru rafmagnsbílar.
773 fólksbílar voru skráðir á fyrirtæki á fyrri hluta árs sem er 26,3% aukning. 57% þeirra bíla voru rafmagnsbílar.
Flestar nýskráningar fólksbíla eru bílaleigubílar en þeir eru samanlagt 4.628. Það eru um 60% af heildarfjölda nýskráðra fólksbíla. Þar af voru flestir svokallaðir hybrid-bílar, eða tvinnbílar og þar á eftir eru tengiltvinnbílar og dísilbílar.
Kia er mest skráða bíltegund í ár með 1.490 nýskráða fólksbíla en það jafngildir 19% af öllum nýskráðum bílum það sem af er ári. Toyota fylgir á eftir Kia með 12% af nýskráðum bílum eða 971. Tesla og Dacia eru hvor um sig með 8% nýskráninga, að því er segir í tilkynningu Bílgreinasambandsins.