Hluthafafundur Íslandsbanka hf. fór fram í gær. Á fundinum var samþykkt tillaga stjórnar um breytingar á starfskjarastefnu bankans. Breytingarnar fela í sér aukið svigrúm fyrir stjórn bankans til að umbuna starfsfólki fyrir árangur með skýrt skilgreindum hætti, meðal annars með möguleika á kaupaukagreiðslum og kaupréttaráætlun. Uppfærð starfskjarastefna verður birt á heimasíðu bankans.
Jafnframt var tekin fyrir vantrauststillaga sem Vilhjálmur Bjarnason, hluthafi, lagði fram á fundinum á hendur Stefáni Sigurðssyni, stjórnarmanni Íslandsbanka. Tillagan, sem laut að atburðum tengdum aðalfundi Glitnis árið 2008, var felld með afgerandi hætti, en 99,76% greiddra atkvæða voru gegn tillögunni.