EFTA-ríkin, Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss, hafa náð samkomulagi við Mercosur-ríkin, sem samanstanda af Argentínu, Brasilíu, Paragvæ og Úrúgvæ, um fríverslunarsamning.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.
Samkomulag ríkjanna var tilkynnt við hátíðlega athöfn í Buenos Aires, höfuðborg Argentínu, í dag en ráðherra fundur Mercosur-ríkjanna fór þar fram. Ragnar G. Kristjánsson, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, tók þátt í athöfninni fyrir Íslands hönd.
Það stendur til, samkvæmt tilkynningunni, að fullgilda samninginn á Alþingi síðar á þessu ári. Samningurinn kemur til með að bæta aðgengi íslenskra fyrirtækja að markaðssvæði ríkjanna, sem telur um 260 milljónir íbúa.
Auk þess mun fríverslunarsamningurinn koma til með að styrkja viðskiptatengsl Íslands og Suður-Ameríku og skapa ný tækifæri, sérstaklega hvað varðar markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir.
„Ég fagna þessum víðtæka og metnaðarfulla samningi, sem er afrakstur virkrar þátttöku okkar í samningaviðræðunum frá upphafi. Hann skapar mikilvæg tækifæri á stærsta markaðssvæði Suður-Ameríku og endurspeglar skýra stefnu Íslands um að fjölga tækifærum fyrir íslensk fyrirtæki á erlendum mörkuðum,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra um samninginn.