Byggja þjónustuhús á Akureyri

Samningar hafa verið undirritaðir um stækkun á gagnaveri atNorth.
Samningar hafa verið undirritaðir um stækkun á gagnaveri atNorth. Ljósmynd/Aðsend

Framkvæmdir við 16 milljarða króna stækkun gagnavers atNorth á Akureyri miðar vel og er fyrsti áfangi þess nú kominn í rekstur. Samhliða stækkun gagnaversins verður reist ný þjónustubygging fyrir ört stækkandi hóp starfsmanna fyrirtækisins á Akureyri. 

Fyrsta skóflustungan að nýja húsinu var tekin í dag við hátíðlega athöfn. Viðstaddir voru fulltrúar bæjarstjórnar Akureyrar, starfsmenn atNorth, verktakar og aðrir gestir. Húsið verður staðsett vestan við núverandi byggingar á athafnasvæði félagsins og er áætlað að það verði tekið í notkun á næsta ári.

„Umsvifin á Akureyri hafa aukist hröðum skrefum og ljóst að við þurfum að reisa nýja þjónustubyggingu til að tryggja framúrskarandi aðstöðu til framtíðar fyrir ört stækkandi starfsmannahóp okkar. Auk mikils fjölda verktaka sem vinnur að stækkun rekstursins, erum við með um 80 fasta starfsmenn á Íslandi og þriðjungur þeirra er á Akureyri,“ segir Anna Kristín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri þróunar og nýsköpunar hjá atNorth, sem tók fyrstu skóflustunguna í góðra manna hópi.

Frá skóflustungunni.
Frá skóflustungunni. Ljósmynd/Aðsend

Gróðurhús fyrir nemendur

Samhliða framkvæmdunum hafa Akureyrarbær og atNorth gert samkomulag um að nýta glatvarma frá gagnaverinu til samfélagsverkefna, meðal annars til upphitunar á gróðurhúsi sem á að reisa á samfélagslegum forsendum. Verkefnið er unnið í samstarfi við Ferro Zink og Gróðrastöð Akureyrar.

Markmiðið er að skapa lærdómsumhverfi fyrir nemendur á grunn- og framhaldsskólastigi á Akureyri, Þar sem áhersla verður lögð á vistvæna ræktun og sjálfbæra orkunýtingu. Gróðurhúsið á að vera tilbúið í haust samkvæmt áætlun.

„Við leggjum mikla áherslu á að Akureyri verði leiðandi í orkunýtingu og sjálfbærni,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri. „Þetta samstarf við atNorth og Eim er lykilskref í þeirri vegferð og þeir möguleikar sem fylgja samkomulagi um nýtingu glatvarma frá gagnaverinu eru afar mikilvægir fyrir bæjarfélagið. Sá samningur sem undirritaður var í dag er í takti við þær væntingar sem við höfðum um áhrif þeirra innviðaframkvæmda sem ráðist var í til að tryggja raforkuflutning inn á svæðið.“

Samningaviðræðurnar voru leiddar af Eimi, atvinnuþróunarfélagi sem hafði það að markmiði að bæta nýtingu auðlinda á Norðurlandi með sjálfbærni og nýsköpun að leiðarljósi

„Þetta verkefni er mjög spennandi og vonandi aðeins fyrsta skrefið af mörgum í þeirri viðleitni að virkja ónýttar auðlindir til raunverulegrar verðmætasköpunar á svæðinu. Samningurinn er einstakur og sýnir glögglega hvað er mögulegt þegar sveitarfélög, stofnanir og fyrirtæki vinna saman að nýsköpun sem stuðlar að sjálfbærni,“ segir Karen Mist Kristjánsdóttir, verkefnastjóri hjá Eimi.

Skrifað undir samninga.
Skrifað undir samninga. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK