Engar hömlur eru á því að Festi geti opnað nýja dagvöruverslun á Hellu, að því er fram kemur í leiðréttingu frá Samkeppniseftirlitinu í dag.
Í frétt Viðskiptablaðsins í gær var ranglega fullyrt að sátt Festi við Samkeppniseftirlitið frá árinu 2018, vegna samruna Festi og N1, stæði í vegi fyrir slíkri opnun. Samkeppniseftirlitið leiðréttir nú þann fréttaflutning.
Samruninn vakti á sínum tíma áhyggjur af samkeppnishömlum á Hellu og Hvolsvelli, þar sem nær öll dagvörusala hefði færst undir Festi. Til að bregðast við því lagði Festi til sölu á verslun Kjarvals á Hellu, og í kjölfarið keypti Samkaup húsnæðið og rak Kjörbúðina í staðinn.
Samkeppniseftirlitið tekur fram að sáttin við Festi kveði einungis á um að fyrirtækið megi ekki kaupa eða leigja sama húsnæði í tíu ár. Engar takmarkanir eru á því að Festi – eða aðrar dagvöruverslanir – opni nýja verslun í öðru húsnæði á Hellu.