Áform um skattabreytingar og auknar álögur á sjávarútveg hafa þegar haft áhrif á fjárfestingar og verkefni fyrirtækja sem þjónusta greinina. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hafa nokkur fyrirtæki, sem sérhæfa sig í tækni, búnaði og lausnum fyrir útgerðir og vinnslur, orðið vör við að verkefnum hafi verið frestað og eftirspurn dregist saman.
Sérfræðingar í greininni benda á að fjárfestingarþörf hafi byggst upp á undanförnum árum, ekki síst eftir erfitt tímabil með hátt vaxtastig. Merki hafi verið um aukna eftirspurn eftir tæknilausnum og sjálfvirkni í upphafi ársins, en óvissa vegna breyttra rekstrarskilyrða og fyrirhugaðra skattabreytinga hafi haft áhrif á þróunina.
„Við höfum klárlega orðið vör við þetta. Mörgum verkefnum hefur annaðhvort verið slegið á frest eða hreinlega fallið niður,“ segir Óskar Pétursson, framkvæmdastjóri tæknifyrirtækisins Klaka, sem sérhæfir sig í sjálfvirknivæðingu fyrir sjávarútveg. Hann segir haustið líta út fyrir að verða rólegra en ella og að fyrirtæki þurfi í auknum mæli að færa fókus sinn annað vegna þessarar þróunar.
Óskar nefnir dæmi um verkefni sem Klaki hefur haft lengi í undirbúningi og búið er að leggja mikla hönnun og þróun í sem hætt hafi verið við. „Þetta var verkefni sem var augljóslega hagkvæmt fyrir viðkomandi fyrirtæki til lengri tíma litið, en áhyggjur af rekstrarumhverfinu og auknum álögum hafa orðið til þess að ekki er ráðist í fjárfestinguna,“ segir Óskar.
Að hans mati getur þessi þróun grafið undan samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs á alþjóðamarkaði.
„Þetta er ekki flókið. Sjávarútvegurinn er eina alvörumagnframleiðslugreinin sem við höfum á Íslandi. Hún verður einfaldlega ekki samkeppnishæf erlendis nema framleiðslan sé eins sjálfvirk og mögulegt er. Ef fyrirtækin hafa ekki tök á því að sjálfvirknivæða framleiðsluna sína verða þau ekki samkeppnishæf,“ segir Óskar.
Hann vekur jafnframt athygli á þeirri spurningu hvort nægilega vel hafi verið metið hvaða áhrif auknar álögur og skattahækkanir á sjávarútveg geta haft á verðmætasköpun í landinu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.