Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann jókst um 3,2% á fyrsta ársfjórðungi 2025, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Ráðstöfunartekjur heimila á mann námu tæplega 1,6 milljónum króna og jukust um 7,5% á milli ára, en verðbólga á tímabilinu mældist 4,2%.
Heildartekjur heimilanna jukust um 7,4%, þar af hækkuðu launatekjur um 7,9% og vaxtatekjur um 10,3%. Lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur jukust um 9,2%. Á móti hækkuðu heildargjöld heimilanna um 5,4%, meðal annars vegna hærri skattgreiðslna og tryggingagjalda.
Samhliða þessum tölum hefur Hagstofan einnig birt uppfærðar tölur um framleiðsluuppgjör þjóðhagsreikninga fyrir árin 1995–2024. Þær breytingar hafa áhrif á helstu hagstærðir í heild, sem meðal annars liggja til grundvallar mati á tekjum og hagvexti.