Þorgerður Arna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri fasteignaþróunarfélagsins Landeyjar, segir að Arnarland ehf., eigandi Arnarlandsins í Garðabæ sem auglýst var til sölu í heild sinni í síðustu viku, sé mjög áhugavert tækifæri fyrir fjárfesta.
Arnarlandið, sem er níu hektarar að stærð, liggur norðan Arnarnesvegar við Hafnarfjarðarveg.
Þorgerður segir að mikill áhugi sé á verkefninu.
Arnarland ehf. er, eins og fram kom í ViðskiptaMogganum í síðustu viku, að 51% hluta í eigu Landeyjar, sem er í eigu Arion banka. 49% eru í eigu fasteignafélagsins Akureyjar, sem er í eigu Ósa, sem aftur er í eigu feðganna Kristjáns Jóhannssonar og Jóhanns Inga Kristjánssonar, eigenda Icepharma og fleiri fyrirtækja.
Ósar munu byggja höfuðstöðvar sínar í Arnarlandi og mynda kjölfestu í þeirri heilsutengdu starfsemi sem hugmyndafræði svæðisins gengur út á. Hluti af henni eru líkamsræktarstöðvar, golfhermar og ýmis heilsutengd starfsemi auk verslunar og þjónusturýma.
Þorgerður segir að svæðið liggi mjög miðlægt. „Þetta er kannski ekki nafli alheimsins, en klárlega nafli höfuðborgarsvæðisins, alveg í miðju þess.“
Hún segir að staðsetningin sé einmitt eitt af því sem geri svæðið jafn spennandi og raun ber vitni. „Þarna ertu í Garðabæ en við hlið Kópavogs, á samgöngu- og þróunarás enda er gert ráð fyrir að borgarlínan muni liggja um svæðið. Frá Arnarlandi verður auðvelt að ferðast til allra átta með fjölbreyttum máta.“
Allri skipulagsvinnu, sem hófst árið 2022, er lokið og kaupendur fá svæðið tilbúið til uppbyggingar. „Nú gefst öflugum aðilum tækifæri á að taka við keflinu og byggja upp nýtt hverfi með 450 hágæða íbúðum á þessum frábæra stað. Einnig er réttur til að byggja 3.100 fermetra skrifstofubyggingu.“
Þorgerður segir að skipulagið geri ráð fyrir 1-2 bílastæðum með hverri íbúð. Auk þess eru bílakjallarar undir atvinnuhúsnæði og heilsuklasa. Einnig er gert ráð fyrir bílastæðahúsi með rými fyrir dagvöruverslun á jarðhæð.
Fjölbýlishús á svæðinu eru almennt tveggja til fimm hæða.
Þorgerður segir að sérstaða svæðisins liggi ekki hvað síst í hugmyndafræðinni sem einkennist af áherslum á heilsusamlegan lífsstíl og almennum lífsgæðum. Það muni setja sterkan brag á hverfið. Til dæmis segir Þorgerður að eins kílómetra langur svokallaður „virknistígur“ muni liggja um allt svæðið. Hann gefi fólki kost á góðum göngutúr um svæðið þar sem hægt verði að grípa kaffi og með því á leiðinni. Þá mun stígakerfið tengjast nærliggjandi stígakerfi með gönguleiðum að strönd og fleiri fallegum stöðum.
Lesa má viðtalið í heild sinni í ViðskiptaMogganum
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.