Íslenska sjávarlíftæknifyrirtækið Unbroken hefur gert tímamóta starfssamning við eitt fremsta atvinnuhjólreiðalið heims, Lidl- Trek. Samningurinn er þriggja ára og hefst formlega í byrjun júlí. Samningurinn er metinn á vel á annan milljarð króna.
Um er að ræða samning sem nær yfir karla-, kvenna- og ungmennaliða Lidl-Trek. Samningurinn nær einnig til fjallahjólreiðaliðsins Trek Factory Racing. Unbroken sem er fæðubótaefni sem hraðar endurheimt vöðva mun fara í alþjóðlega dreifingu, bæði í Trek- verslunum víða og í Lidl verslunum um allan heim.
„Samningurinn er með allra stærstu styrktar- og samstarfssamningum sem íslenskt fyrirtæki hefur gert,“ segir Steinar Kristjánsson, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Unbroken. Hann segir samninginn jafnframt vera mikla viðurkenningu, „Það er mikil viðurkenning á gæði vörunnar að afreksíþróttafólk noti Unbroken í hjólreiðakeppni eins og Tour de France, þar sem keppnisbúningar Lidl-Trek liðsins verða merktir vörumerkinu.“
Steinar segir að tengslin við Lidl-Trek hafi skapast síðasta sumar í gegnum hjólreiðakappann Andy Schleck, sigurvegara Tour de France 2010, sem nú gegnir hlutverki alþjóðlegs sendiherra Unbroken.
„Lidl-Trek liðið notar Unbroken fyrir og eftir allar æfingar með góðum árangri,“ bætir Steinar við.
Schlek hefur greint frá því að samstarfið hafi farið í gegnum ítarlega skoðun hjá læknum og næringarfræðingum liðsins, „Samstarf af þessu tagi verður ekki að veruleika fyrr en læknar og næringarfræðingar Lidl-Trek liðsins hafa tekið okkar vöru fyrir,“ segir Andy Schleck.
„Árangur liðsins á þessu ári hefur farið langt fram úr björtustu væntingum,“ segir Schlek en hann segist einnig vera stoltur af því að tilheyra Unbroken teyminu.
Unbroken er þegar í sölu í Bandaríkjunum, Evrópu og Miðausturlöndum. Fæðubótarefnið uppfyllir allar helstu vottunarkröfur í matvælaframleiðslu og hefur verið vottuð af Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA) og Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunarinnar (WADA). Þar að auki hefur Informed sport gefið Unbroken sína vottun, sem veitir íþróttamönnum fullvissu um það að ekkert efni í Unbroken sé ólöglegt.