Danski framleiðandinn Bang & Olufsen (B&O) fagnar í ár 100 ára afmæli sínu. Afkoman hefur verið undir væntingum og reksturinn erfiður. B&O framleiðir einkum hátalara, heyrnartól og sjónvörp.
Tekjur B&O námu um 2,6 milljörðum danskra króna á síðasta rekstrarári, eða rúmlega 50 milljörðum íslenskra króna. Þetta jafngildir samdrætti upp á 1,4 prósent frá fyrra ári og er þriðja árið í röð sem tekjur fyrirtækisins dragast saman. Tap eftir skatta nam 17 milljónum danskra króna, sem samsvarar um 324 milljónum íslenskra króna.
Fram kemur í frétt Berlingske að stjórnendur fyrirtækisins lýsa árinu sem umbreytingarári þar sem áhersla sé lögð á að styrkja stöðu B&O á helstu mörkuðum. Í nóvember síðastliðnum safnaði fyrirtækið um 217 milljónum danskra króna í nýtt hlutafé, sem samsvarar um 4,1 milljarði íslenskra króna.
Stefnt er að því að tekjur aukist á yfirstandandi ári. Sérstök áhersla verður lögð á vöxt í Asíu, einkum í Kína. Stjórnendur viðurkenna þó að áfram geti óvissa í efnahagsmálum og áhrif af viðskiptadeilum haft áhrif á reksturinn. B&O hefur hækkað verð á ýmsum vörum á síðustu mánuðum, sérstaklega á Bandaríkjamarkaði. Þar á meðal eru Beolab 90-hátalararnir, sem eru eitt flaggskip fyrirtækisins. Par af þeim kostar nú um 211.800 bandaríkjadali, sem jafngildir um 25,6 milljónum íslenskra króna.
Fjármálastjóri fyrirtækisins segir verðhækkanirnar meðal annars tilkomnar vegna aukins kostnaðar, hærri tolla og óvissu á mörkuðum. mj@mbl.is
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.