Hið ljúfa líf er vikulegur lífstílsdálkur ViðskiptaMoggans
Sérfræðingur ViðskiptaMoggans í nautnalífi hefur núna komið sér fyrir í Dóminíska lýðveldinu og reiknar með að vera á flandri um Karíbahafið og nærsveitir á næstu misserum.
Á meðal þeirra staða sem eru á listanum er skemmtigarðaparadísin Orlando, þar sem alltaf er eitthvað nýtt og spennandi í boði. Það er annars algjör misskilningur að skemmtigarðar séu bara fyrir barnafjölskyldur: ef eitthvað er þá er betra að skilja börnin eftir heima svo að fullorðna fólkið geti notið sín.
Það gerðist frekar seint að ég fékk skemmtigarðabakteríuna, en ég var að nálgast þrítugt þegar ég heimsótti Disneyland í fyrsta skipti og varð agalega heillaður af sykursætum draumaheimi Mikka Músar og félaga. Mér reiknast núna til að ég hafi tekið þrjár lotur í Orlando og á ég samt heilmikið eftir þar. Þá hef ég heimsótt helstu skemmtigarða í Evrópu, Singapúr, Japan og Kaliforníu og má því heita nokkuð sjóaður í fræðunum. Er því upplagt að ég deili nokkrum ráðum með lesendum ef þeir skyldu eiga erindi í skemmtigarð í sumar. Það getur nefnilega gert heimsóknina mun ánægjulegri ef fólk setur sig í réttar stellingar.
Fyrst af öllu er gott að reyna að velja rólegan tíma. Ég held að ég skjótist ekki yfir til Orlando fyrr en í september því að ösin er svo mikil yfir sumarmánuðina, biðraðirnar langar og hótelin dýr. Það er líka gott ef sneiða má hjá helgunum og helstu hátíðis- og frídögum þegar annríkið er mest. Hér má styðjast við vefsíður á netinu sem birta ítarlegar spár yfir hvaða daga er minnst og mest að gera í görðunum.
Svo er vissara að kaupa aðgöngumiðana með góðum fyrirvara. Þannig missti ég næstum af því að komast í Universal Studios í Osaka þegar ég átti leið þar um í október, en þá var hrekkjavökustemning í garðinum, kraðakið með mesta móti og uppselt dag eftir dag. Var svo mikið af fólki í garðinum að meira að segja hraðpassarnir seldust upp og hef ég aldrei áður séð það gerast.
Talandi um hraðpassa – eru þeir góð fjárfesting? Í flestum görðum er hægt að borga aukalega fyrir að sleppa við biðröðina í tækin: Stundum gildir passinn í öll tæki, og stundum bara í nokkur. Stundum gildir passinn endalaust, og stundum bara fyrir eina ferð í hverju tæki. Í sumum görðum er enginn passi í boði, en hægt að „panta tíma“ og koma aftur síðar án þess að bíða í röð, og í öðrum görðum er hægt að borga sig fram fyrir röðina í hverju tæki fyrir sig. Sums staðar eru kerfin einföld, og annars staðar eru þau flókin og verðskráin breytileg. Sums staðar þarf að hlaða niður snjallsímaforriti, og sums staðar ekki.
Fyrir fólk með íslensk meðallaun eru hraðpassarnir yfirleitt peninganna virði. Algengt er að hraðpassinn kosti á við tvo aðgöngumiða, fyrir hvern notanda, en upphæðin er ekki svo há þegar hún er sett í samhengi við heildarkostnaðinn við ferðina. Með hraðpassa er hægt að skoða skemmtigarðana hratt og vel í stað þess að verja hálfum deginum standandi í biðröð, og upplifunin verður betri á alla kanta.
Hvert á svo að fara, og hvaða skemmtigarðar eru peninganna virði? Stutta svarið er að Orlando ber höfuð og herðar yfir aðra valkosti: þar er allt á einum stað, á meðan Universal- og Disney-garðarnir í öðrum löndum eru smækkaðar útgáfur, meira eða minna með sömu tækjum, en sjálfstæðu skemmtigarðarnir sem má finna hér og þar eru yfirleitt ekkert spes.
Ég verð þó að minnast sérstaklega á Fuji-Q Highland, við rætur Fuji-fjalls, en hvergi hef ég fundið annað eins samansafn af bandbrjáluðum rússíbönum. Fuji-Q er í algjörum sérflokki og verðskuldar sérstaka Japansferð.
Disney heldur úti fjórum skemmtigörðum í Orlando, þar sem Magic Kingdom er sá klassíski (ekki missa af flugeldasýningunni skömmu fyrir lokun!) og Hollywood Studios-garðurinn hefur að geyma Star Wars-svæðið sem var opnað árið 2019 við miklar vinsældir.
Universal Studios var að bæta við þriðja skemmtigarðinum í Orlando, og er að auki með vatnsrennibrautagarð. Helsti styrkleiki Universal er Harry Potter og hefur hver skemmtigarður sérstakt svæði tileinkað göldrótta guttanum. Nýi garðurinn, Epic Universe, var opnaður í maí, og skartar m.a. svæði helguðu Super Mario og félögum og svæði tileinkuðu teiknimyndinni How to Train Your Dragon.
Alla jafna eru rússíbanarnir í Disney-görðunum barnvænni og rólegri, á meðan Universal stílar inn á unglinga á öllum aldri með meiri hasar og spennu.
Vissara er að fara rétt útbúinn í skemmtigarðinn. Auðvitað þarf að klæða sig í samræmi við veður, gleyma ekki derhúfunni, sólgleraugunum, sólarvörninni og handsprittinu, en sleppa skartgripum. Skórnir þurfa að vera þægilegir og ekki viðkvæmir fyrir bleytu, ef stefnan er sett á þannig tæki. Það ætti að skilja myndavélina eftir heima – hún er þung og síminn tekur alveg nógu góðar myndir. Regnhlífin þarf heldur ekki að koma með og ef það skyldi rigna má yfirleitt kaupa regnstakk fyrir lítið.
Ekki taka með nesti: maturinn í skemmtigörðunum er dýr og misjafn að gæðum, en það er hluti af upplifuninni. Lítil vatnsflaska getur hins vegar komið í góðar þarfir en flestir skemmtigarðar eru með drykkjarbrunna á stangli.
Loks hef ég tamið mér að taka alltaf með mér lokanlegan plastpoka til að verja raftæki gegn bleytu, hleðslubanka til að halda símanum gangandi, og vasaklút til að strjúka í burtu svita. Besta ferðatrixið af öllum er að hafa með sér nokkrar meðalstórar bréfaklemmur til að loka sælgætispokum tryggilega. Allt ætti þetta að rúmast í mittistösku.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.