Í viðskiptahluta Dagmála þessa vikuna var rætt um fjármálahlið íþrótta. Gestur þáttarins var Sævar Þór Sveinsson, sérfræðingur í þeim efnum og umsjónarmaður vefsins Utan vallar.
Spurt var hvort sameining íþróttafélaga á Íslandi gæti verið leið til að styrkja rekstur og bæta árangur. Sævar segir að fjárhagslega sé það klárlega möguleiki. „Það er alveg hundrað prósent hægt að hagræða töluvert í rekstrinum ef það væru einhverjar sameiningar sem myndu eiga sér stað,“ útskýrir hann.
Þrátt fyrir það hefur umræðan hér á landi verið erfið. „Þetta hefur verið svolítið svona heit kartafla. Við erum að sameina félög og það er mikið stolt undir hvað þetta varðar,“ segir Sævar.
Hann bendir á að á Norðurlöndum hafi sameiningar verið algengar, ekki síst í Danmörku. Þar varð FC København til árið 1992 með sameiningu félaga, og er félagið núna það stærsta í Danmörku og eitt hið stærsta á Norðurlöndunum. „Það leggur svolítið grundvöllinn að árangrinum að geta sameinað allt undir einn hatt og gert eitthvað betra úr því,“ segir hann.
Að hans mati felst ávinningurinn ekki aðeins í sterkari rekstri heldur einnig í auknu leikmannavali og meiri samkeppni innan félagsins.
Áskrifendur Morgunblaðsins geta horft á þáttinn í heild sinni hér: