Hildur Einarsdóttir, forstjóri Advania á Íslandi, segir að lykilatriðið í því að ná samkeppnisforskoti sé að nýta þá sérþekkingu og reynslu sem þegar er til staðar innan fyrirtækisins.
„Það er náttúrulega kosturinn við að vinna í fyrirtæki eins og Advania. Þú ert með sex hundruð manns í húsi sem allir hafa stórkostlegan áhuga á tækniframförum og hagnýtingu þeirra,“ segir hún.
Hún bendir á að áherslan sé bæði á að efla kjarnastarfsemina og á sama tíma spyrja sig hvar liggi raunveruleg tækifæri fyrir viðskiptavini til að nýta nýja tækni. Að hennar mati er ekki nóg að skrifa glæsileg stefnuplögg; þau þurfi að hafa raunverulegt erindi við reksturinn og skila mælanlegum árangri.
„Það er mjög auðvelt að keyra af stað í einhverri gervigreindarvegferð sem nýtist fyrirtækjunum ekki eins og skyldi,“ segir hún og bætir við að Advania vilji vera trúverðugur samstarfsaðili íslenskra fyrirtækja og stofnana.
Að hennar sögn felst styrkurinn í að fyrirtækið geti lært af þekkingu frá nágrannalöndum. Hún telur að það sé forsenda þess að breytingarnar verði raunhæfar og hafi varanleg áhrif.
Áskrifendur Morgunblaðsins geta horft á þáttinn í heild sinni hér: