Hildur Einarsdóttir, forstjóri Advania á Íslandi, segir að lykilatriðið í því að ná samkeppnisforskoti sé að nýta þá sérþekkingu og reynslu sem þegar er til staðar innan fyrirtækisins.
Hildur segir að rekstur Advania hafi gengið vel að undanförnu og að það sé afar ánægjulegt að starfa í þessum bransa. „Þetta er mjög skemmtilegur bransi að vera í,“ segir hún og bendir á að fyrirtæki og stofnanir standi þó frammi fyrir gríðarlegum áskorunum.
„Það sem er kannski áhrifaríkast í rekstri Advania hér á Íslandi er þessi reynsla og þekking sem við búum að inni í félaginu,“ segir hún.
Hildur segir að fyrirtæki sem hafi þegar tekið gervigreind í notkun sjái fljótt mikinn rekstrarlegan ávinning. „Ég held að það sé óumflýjanlegt að árangurinn sjáist fljótt,“ segir hún og bætir við að bæði hér heima og erlendis hafi reynslan sýnt að árangurinn láti ekki á sér standa.
Hún bætir við að mannlegi þátturinn styrkist í kjölfarið. Hún segir að sérfræðingar nýtist betur fyrir fyrirtækin þegar gervigreind kemur inn í myndina, hvort sem er til að keyra stærri verkefni, hraða framkvæmdum, auka vöruframboð eða bæta þjónustu. „Þannig að maður sér strax töluverðan ávinning,“ segir hún.
Gervigreind geti jafnframt tekið að sér ákveðna handavinnu sem áður krafðist mikils mannlegs vinnuframlags. Hildur bendir þó á að mikilvægt sé að líta ekki á tæknina sem staðgengil fyrir heilu störfin, heldur sem tæki til að sjálfvirknivæða ferla og ákveðin verkefni. Með því móti megi nýta hana sem best.
Áskrifendur Morgunblaðsins geta horft á þáttinn í heild sinni hér: