Fólk er ekki til sölu

Andrés Jónsson, stofnandi Góðra samskipta.
Andrés Jónsson, stofnandi Góðra samskipta. Ljósmynd/Aðsend

Andrés Jónsson, stofnandi Góðra samskipta skrifar:

Fyrirsögnin kann að virðast augljós en þessi pistill fjallar hins vegar ekki um mansal heldur um óljósari kaup; kaup á samvisku, þögn, stuðningi, hollustu og tryggð. Kaup sem eru, ef marka má heitrapottaspjall, kommentakerfi, samfélagsmiðla, sánaklefa og jafnvel stjórnarherbergi þessa lands, algeng í okkar samfélagi.

Mjög reglulega eru ummæli látin falla þar sem efast er um heilindi fólks í ljósi þátta eins og tengsla þeirra, ætternis, fjárhagsstöðu, heimilisfestis, starfs eða skoðana: „já, þú veist hverjum hún er tengd?“, „já, þú veist fyrir hvern hann er að vinna?“ og „veistu ekki hver pabbi þeirra er?“ Í flestum tilfellum jánkar maður, enda kostar það mann yfirleitt ekki mikið að trúa slæmum hlutum upp á annað fólk.

Mig langar nefna þrjár stéttir sem jafnan eru mikið á milli tannanna á fólki og liggja reglulega undir grun um að hafa bein tengsl eða fjárhagslega hagsmuni til hliðsjónar í störfum sínum – fólk sem margir vilja meina að hægt sé að kaupa. Þetta eru stjórnmálamenn, fjölmiðlamenn og fólk í viðskiptum. Allt stéttir sem ég hef fylgst með í návígi í gegnum störf mín sem almannatengill.

Fyrst stjórnmálin. Mín reynsla er að allt það forystufólk sem leitt hefur ríkisstjórnarflokka eða borgarstjórnarmeirihluta síðustu 20 ár (og hefur haft
völd á Íslandi) hefur haft almannahagsmuni efst
í huga í störfum sínum og verið nokk sama um þá sérhagsmuni sem otað hefur verið að þeim. Þau hafa kannski heyrt betur í sumum sérhagsmunum en öðrum en á endanum er það trúnaður þeirra við kjósendur sem ræður ferðinni – og bara sjálfsvirðing þeirra sem stjórnmálamanna því á endanum vill allt fólk gera vel.

Í öðru lagi fjölmiðlafólk, sem margir vilja meina að stjórnist af einhverjum lægri hvötum eða fyrirfram gefnum viðhorfum þegar það er alls ekki raunin. Ástæðan fyrir því að fjölmiðlafólk spyr erfiðra spurninga og hefur meiri áhuga á því sem aflaga fer en öðru er að það er í vinnu fyrir lesendur sína, hlustendur og áhorfendur. Ég trúi því að ef sá sem kvartar undan umfjöllun yrði settur í hlutverk fjölmiðlamanns þá myndi viðkomandi nálgast verkefnið á alveg sama hátt.

Í þriðja lagi vil ég nefna fólk í viðskiptalífinu, sem stundum er ásakað um að tala einni röddu. Margt af því hefur núna áhyggjur af væntanlegum dómi Hæstaréttar í máli Neytendasamtakanna vegna meintra óskýrra lánaskilmála húsnæðislána með breytilegum vöxtum. Málið er talið geta haft mjög neikvæð áhrif á íslenska hlutabréfamarkaðinn í langan tíma ef bankarnir tapa málinu. Það kemur samt ekki í veg fyrir að fólk í viðskiptalífinu geti horft á málið út frá fleiri hliðum og sumir telja það geta verið gagnlega niðurstöðu. Ákvæðin sem um ræðir séu allt of víðtæk og augljós freisting að hækka vexti óþarflega mikið verði bankarnir fyrir lánatjóni í öðrum lánaflokkum, svo sem í fjárfestingarbankastarfsemi sinni. Samkeppni á bankamarkaði sé lítil fyrir og muni auk þess minnka við samruna Kviku og Arion banka. Svona talar viðskiptafólk í lokuðum hópi. Það talar yfirleitt ekki með fjárhagslegum hagsmunum sínum nema í kringum tiltekin viðskipti. Þess utan horfir það yfirleitt á mál á breiðum grunni og tekur inn fleiri sjónarmið eins og við flest. Sama á við um samkeppnismál, gjaldmiðlamál og skattamál – það er ekki bara ein skoðun ríkjandi í viðskiptalífinu.

Fjórði hópurinn sem er ekki til sölu eru ungir Íslendingar sem láta marga aðra hluti en laun stýra því hvar þau velja að verja starfskröftum sínum. Sem betur fer er velmegunin slík í íslensku samfélagi að fjárhagslegir hagsmunir trompa nær aldrei samvisku okkar, skyldurækni eða skoðanir.

Að segja skoðun sína kostar fólk líka oftast ekkert. Á ferli mínum sem almannatengill hef ég fengið talsvert af verkefnum frá fólki sem ég hef áður gagnrýnt opinberlega eða sem er ósammála mér í pólitík.

Jú jú, einstaka sinnum selur fólk sálu sína, nafn sitt og orðspor en aldrei nema vera orðið örvæntingarfullt. Fólk er almennt ekki til sölu og sem betur fer eru nánast engir kaupendur að fólki.

Greinin birtist í ViðskiptaMogganum sl. miðvikudag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK