Rósbjörg er viðskiptafræðingur að mennt og hefur víðtæka reynslu á sviði klasastjórnunar og kortlagningar klasa. Rósbjörg er jafnframt fulltrúi SPI á Íslandi og hefur góða reynslu úr íslensku atvinnulífi og starfaði sem ráðgjafi áður en hún varð framkvæmdastjóri Orkuklasans. Það var einmitt í framhaldsnámi sem Rósbjörg var að kafa ofan í áhrif ráðstefna á samfélög þjóða að hún endaði á bólakafi í samkeppnishæfnisgreiningum og klasastjórnun. En Rósbjörg hefur leitt og skapað fjölmargar alþjóðlegar ráðstefnur þar sem þekkingarstjórnunin hefur skipað stóran sess. Ein þeirra er Iceland Geothermal Conference – IGC.
Hvernig nálgast þú stefnumótun eða langtímamarkmið?
Ég nálgast stefnumótun með því að byggja á skýrri framtíðarsýn og tilgangi.
Fyrst greini ég stöðuna eins og hún er í dag, síðan met ég möguleikana og móta markmið um hvert skuli stefnt. Markmiðin þurfa að vera mælanleg þannig að árangurinn verði áþreifanlegur.
Svo eru það skilgreindar leiðir til aðgerða sem tryggja skýra og framkvæmanlega leið að settu marki. Mikilvægt er að greina umhverfið, bæði innra og ytra umhverfi og draga þannig fram þá stöðu sem gengið er út frá. Klasastjórnun er í eðli sínu stefnumótun og aðgerðir til umbóta svo starf mitt er endurspeglar þætti stefnuótunar og skipulags út í eitt.
Hefur þú einhvern tíma farið í gegn um verulega krísu í starfi? Hvernig tókstu á við hana?
Já, ég hef farið í gegnum verulega krísu í starfi og það var ekki auðvelt að stíga upp. Fyrir mér var það líkt og að detta illa af hestbaki – það getur tekið á mann tímabundið, en með þrautseigju og hugrekki reis ég upp aftur og settist í hnakkinn. Ég gafst ekki upp, leysti úr því sem þurfti og nýtti tækifærið til að byggja mig upp á ný. Úr því varð mitt eigið ráðgjafarfélag og ný hlutverk komu til mín og leiddu mig áfram.
Hvað gerið þið betur en aðrir í greininni?
Það sem Orkuklasinn gerir betur en aðrir í greininni er að horft er til allrar virðiskeðjunnar. Hann tengir saman alla helstu hagaðila í orkutengdri starfsemi.
Með þessari nálgun er tryggt að þekking og reynsla nýtist þvert á virðiskeðjuna, allt frá rannsóknum og nýsköpun til markaðssetningar og alþjóðlegra verkefna. Orkuklasinn er brúarsmiður þvert á greinina jafnt sem aðrar greinar og stuðlar að árangri með heildarávinning að leiðarljósi. Þannig stuðlum við að aukinni samkeppnishæfni, nýjum tækifærum fyrir aðildarfélaga og styrkjum stöðu Íslands sem leiðandi afls í orkutengdri nýsköpun. Enginn er sterkari en veikasti hlekkurinn.
Hvað í rekstrinum heldur fyrir þér vöku á næturna?
Sem betur fer gerist það ekki oft að það sé eitthvað sem heldur fyrir mér vöku.
Sennilega er það einna helst að hafa gleymt að koma upplýsingum á alla aðila eða að einhver hefur gleymst eða eitthvað hefur dottið á milli skips og bryggju þegar mikið er undir.
Hvernig byrjarðu daginn þinn?
Ég byrja hvern dag á að fara út að labba með Perluna mina, virka daga jafnt sem um helgar. Morgungöngurnar okkar eru mislangar en nær aldrei undir hálftíma. Það hreinsar hugann og kemur kerfinu í gang. Síðan kem ég inn, tek mig til og fæ mér góðan kaffibolla og léttan morgunmat. Um helgar fer ég lengri bunur og þá oftar en ekki með tryggum vinum okkar og ferfætlingum.
Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnu?
Það skemmtilegasta sem ég geri er að sinna hestunum mínum, vinna með þá og byggja upp árangur með þeim. Ég hreinlega get ekki beðið eftir að fá hestana mina á hús á haustin og sérstaklega núna þegar 5 vetra 1.v merin mín kemur og við ætlum saman á námskeið í vetur. Ég er með 3 hesta.
Þetta er er lífstíll sem ég hef tileinkað mér s.l 20 ár og hefur gefið mér óendanlega mikið.
Að fara í hesthúsið, græja og gera, þjálfa, útreiðatúrar og hitta góða félaga eru bestu sálfræðitímarnir og besta jarðtengingin. Fyrir utan að þegar maður vinnur með hesta er maður alltaf í leiðtogaþjálfun því allir hestar þurfa leiðtoga í sinni þjálfun til að ná árangri. Hestarnir og hundarnir eru mér allt.
Auk hestanna og hundanna þá finnst mér sérstaklega gaman að eiga góðar stundir með vinum mínum og ættingjum, fara á tónleika og út að borða. Svo er ég pínu bolta nörd ennþá en ég spilaði handbolta með Val í gamla daga. Mér æðislegt að horfa á fótboltann eða handboltann með guðsyni mínum, en við erum miklir Liverpool-aðdáendur en það hef ég verið frá því að ég var smástelpa.
Hver væri titillinn á sjálfsævisögu þinni?
Titillinn væri Traust, trú og þrautseigja – því ég hef alltaf haldið ótrauð áfram, verið trú sjálfri mér og lagt áherslu á að vera traustsins verð, bæði í leik og starfi.
Ég hef verið lánsöm að fá að vinna að verkefnum og hlutverkum sem ég hef brunnið fyrir og náð góðum sigrum sem hafa ekki alltaf verið auðveldir. Með trú á sjálfa mig, hugrekki og þrautseigju hef ég náð að standa við það sem ég tek mér fyrir hendur. Ég legg áherslu á að vera heiðarleg, bæði í leik og starfi, því trúverðugleiki er það sem skiptir mestu máli – ekki síst þegar á móti blæs.
Hvert var fyrsta starfið þitt og hvað lærðirðu af því?
Fyrsta alvöru starfið mitt var hjá Almennum Tryggingum, síðar Sjóvá Almennum Tryggingum strax eftir stúdentspróf. Þetta var starf í innheimtudeildinni sem og afleysing ritara forstjóra. Þarna lærði ég hvernig tryggingar virka og mikilvægi þeirra. Þá fór ég í gegnum stóra sameiningu sem var mjög áhugaverð lífsreynsla þegar maður lítur til baka.
Þetta var sérstaklega góður skóli. Þetta var stórt og virt félag í atvinnulífinu og gaf mér mjög gott veganesti út í lífið.
Hver er eftirminnilegasta minningin þín úr viðskiptalífinu?
Þegar ég fékk það hlutverk að sjá um Harvard-prófessorinn Michael Porter 2011. Þá kom hann hingað ásamt dóttur sinni og vinkonum hennar. Eitt af því sem við gerðum var að fara á hestbak með vinum mínum í Söðulsholti. Ég man að hann var ekki með nægilega hlýjan fatnað enda alltaf í jakkafötum með bindi og mamma gaf honum íslenska lopapeysu sem hún hafði prjónað.
Þetta var einstök upplifun að fá tækifæri til að kynnast átrúnaðargoðinu og guðföður klasahugmyndafræðinnar í návígi og deila með honum og hans fólki upplifun okkar af íslenska hestinum. Ég er sennilega ein af fáum sem hafa hitt þennan snilling ekki með bindi!
Hvað finnst þér vera merki um góða forystu?
Að mínu mati felst góð forysta í að hafa skýra framtíðarsýn, miðla henni á þann hátt að hún hvetji aðra til dáða. Hún byggist á trausti og virðingu, þar sem leiðtoginn hlustar, skapar rými fyrir samtal og samvinnu og gerir fólki kleift að axla ábyrgð og vaxa í sínu hlutverki. Öflugur leiðtogi þorir að taka ákvarðanir, ber ábyrgð á þeim og sýnir bæði sveigjanleika og auðmýkt og lærir af reynslu og mistökum. Góð forysta endurspeglar einnig gott siðferði, heiðarleg og skýr samskipti.
Hvað veitir þér jarðtengingu?
Að fara út að labba með hundinn og fara í hesthúsið. Að vera úti í náttúrunni og með dýrunum, þar næ ég jarðtengingu og hleð batteríin.
Menntun:
Starfsferill:
Áhugamál: Hestamennska og hundar, íþróttir og ferðalög. Spilaði handbolta sem unglingur, fiktað við golf en stunda hestamennsku.
Fjölskylduhagir: Labradortíkin Perla – Köldukvíslar Black Pearl. Einhleyp og barnlaus.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
