Best ef áunnin og greidd vinna saman

Paula Sonne, sérfræðingur í almannatengslum og áunninni fjölmiðlaumfjöllun hjá Eleven\TBWA, …
Paula Sonne, sérfræðingur í almannatengslum og áunninni fjölmiðlaumfjöllun hjá Eleven\TBWA, var með erindi á ráðstefnunni. Ljósmynd/Aðsend

Paula Sonne, sérfræðingur í almannatengslum og áunninni fjölmiðlaumfjöllun (e. earned media) hjá almannatengslafyrirtækinu Eleven\TBWA í Finnlandi, sagði í erindi á markaðsráðstefnunni Krossmiðlun á Grand hóteli á dögunum að fólk hefði aldrei verið mjög hrifið af því að láta selja sér eitthvað. Til dæmis sýndu kannanir að 32% fólks noti auglýsingablokkara á netinu.

Í erindi sínu lagði Sonne áherslu á hvernig vörumerki geti skapað raunveruleg tengsl og vakið athygli, ekki með meira fjármagni, heldur djarfari hugmyndum og nálgun.

Hún segir að almennt treysti fólk frekar fólki en stofnunum. Einnig sé mikilvægt að láta þriðja aðila segja hlutina. „Það er gott ef annar en þú sjálfur segir að þú sért fyndnastur í heimi,“ sagði hún og brosti.

Meðal dæma sem hún tók var verðlaunaherferð fyrir finnska hreinlætisvöruframleiðandann Vuokkoset sem hún tók þátt í að skapa, MENstruation. Þar var áhersla lögð á trans menn sem fara á blæðingar. Herferðin vakti mikla athygli að sögn Sonne.

Hún segir að Vuokkoset hafi viljað fara í útrás með vörurnar, en hafði takmarkað fé til að setja í markaðssetningu.

Sonne sagði að herferð Eleven\TBWA hefði skilað 86% jákvæðum viðbrögðum og fjórtán milljón snertingum á samfélagsmiðlum. Söluaukning á þessari einu vöru var 70% að því er fram kom í máli Sonne.

Önnur herferð sem sérfræðingurinn nefndi var herferð Colas malbikunarfyrirtækisins, ¡Hola!. Hún hafi fengið mikla áunna fjölmiðlaumfjöllun.

Sonne segir að best sé ef greidd og áunnin umfjöllun vinni saman.

Fyrstur hjá Facebook

Petter Høie, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Facebook í Noregi, fór yfir lærdóm sem hann hefur dregið af því að starfa í 25 ár í stafrænum heimi en hann byrjaði árið 2009 hjá Facebook og var fyrsti starfsmaður félagsins í Noregi. Hann sagði meðal annars frá því að Facebook hefði ekki verið til í snjallsímaútgáfu fyrr en í apríl 2013 og auglýsingar verið seldar í box hægra megin á samfélagsmiðlinum. Høie hafi einmitt stundað slíka sölu til að byrja með.

Høie sagði að gögn og gervigreind væru meðal lykilatriða í stafrænum heimi nútímans.

Ástríðufullt fólk

Sigurlína Ingvarsdóttir, meðstofnandi fjárfestingarsjóðsins Behold Ventures og stjórnarmaður í Festi, steig næst í pontu. Hún hefur unnið í tölvuleikjageiranum frá 2006, þegar hún hóf störf hjá CCP, eins og kom fram í máli hennar. Sagði hún að í tölvuleikjabransanum ynni ástríðufullt fólk og hún hefði heillast af umhverfinu.

Hún fór yfir starfsferil sinn og sagðist m.a. hafa unnið að leiknum Star Wars Battlefront í Svíþjóð fyrir tölvuleikjarisann EA og svo að fótboltaleiknum vinsæla FIFA í Kanada.

Þegar covid-faraldurinn skall á flutti hún aftur til Íslands. Þar tók við stjórnarseta í ýmsum fyrirtækjum.

Í tali sínu sagði hún Íslendinga hugsanlega horfa of mikið inn á við, við værum stundum of einangruð í okkar, og hvatti hún fundargesti til að huga meira að alþjóðlegum straumum og stefnum.

Hún segir að Behold Ventures fjárfesti í næstu kynslóð tölvuleikja. Hún bætti við að 3,6 milljarðar manna spiluðu tölvuleiki, eða 36% allra sem aðgang hefðu að netinu.

Geirinn er stærri en tónlistar- og kvikmyndabransinn til samans að hennar sögn, og velti 188,8 milljörðum dala, jafnvirði 23 þúsund milljarða íslenskra króna og fari ört vaxandi.

Hún segir FIFA-leikinn svo stóran að nú séu fótboltamenn jafnvel farnir að herma eftir því sem gerist í leiknum.

Ný útgáfa leiksins kemur jafnan út á haustin en 6-700 manns vinna að gerð hans.

Sigurlína lýsti því á fundinum hvernig hún hefði lagt sín lóð á vogarskálarnar til að koma íslenska karlalandsliðinu inn í leikinn. Sagði hún að sá sem hefði ráðið hana til FIFA væri Englendingur og eftir frækinn sigur Íslendinga á Englendingum á EM 2016 hefði hún stungið upp á því að Ísland færi inn í leikinn.

Þá lýsti hún ýmsum breytingum á FIFA sem hún tók þátt í að þróa, eins og að fámennari lið gætu keppt sín á milli m.a. og að leyfa spilurum að setja sjálfa sig inn í leikinn.

Bíta gras í haga

Matthew Moran var síðastur á mælendaskrá. Hann er yfirmaður stefnumótunar í nýsköpun hjá OAG (Omnicom Advertising Group).

Sagði hann í erindi sínu að flestar auglýsingar væru hundleiðinlegar þó að gríðarlegum fjárhæðum væri eytt í að búa þær til eða 189 milljörðum dala ár hvert. Sagði hann að meirihluta upphæðarinnar væri varið í leiðinlegar auglýsingar, eða 109 milljörðum dala.

Birti hann skemmtilegt dæmi um það þegar fólk er látið meta gæði auglýsinga, og það beðið að svara hvort væri meira spennandi, auglýsingin eða beljur að bíta gras úti í haga.

Sagði hann að í raun væru aðeins 20% auglýsinga sem næðu raunverulega til fólks.

43 sent af hverjum dollara í auglýsingakostnað eru tapað fé að hans sögn og klykkti hann út með því að segja að mikilvægast í þessum efnum væri að segja góða sögu.

Salurinn á Grand hóteli var þéttsetinn áhugasömu fólki.
Salurinn á Grand hóteli var þéttsetinn áhugasömu fólki. Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka