Hið ljúfa líf er vikulegur lífstílsdálkur ViðskiptaMoggans
Von er á skemmtilegu nýju merki á íslenska úramarkaðinn og þessa dagana er unnið að því hjá Michelsen að búa til gott pláss í búðinni fyrir Baume et Mercier.
Um er að ræða einn af þessum rótgrónu öldungum svissneskrar úrsmíði en rætur Baume et Mercier ná allt aftur til ársins 1830. Fyrirtækið varð snemma þekkt fyrir afar vönduð og nákvæm úrverk, rakaði til sín verðlaunum og sigraði allan heiminn.
Það má setja Baume et Mercier n.v. á svipaða hillu og TAG Heuer eða Longines og kosta ódýrustu úrin þeirra 890 franka en þau dýrustu 26.100 franka. Með fyrirvara um að verðlisti Michelsen liggur ekki fyrir má umreikna þessi verð yfir í u.þ.b. 135 þúsund til 3,9 milljónir króna.
Lesendur ættu sérstaklega að skoða Clifton-línuna og Riviera-línuna. Clifton-úrin eru afar sígild og stílhrein spariúr gerð úr eðalmálmum og með fullkomnu gangverki sem hefur allt að fimm daga orkuforða.
Riviera-úrin eru hins vegar sportleg stálúr, með sambyggðum kassa og armbandi, en þessi úr komu á markað árið 1973, eða um svipað leyti og Royal Oak frá Audemars Piguet og Nautilus frá Patek Philippe. Hönnunin hefur elst vel og hefur ýmis skemmtileg sérkenni, eins og t.d. skrúfurnar fremst á kassanum, sem eru ekki til skrauts heldur halda glerinu föstu á sínum stað.
Michelsen má þegar taka við pöntunum þó að formleg sala hefjist ekki fyrr en 1. nóvember, en þegar úrin koma í búðina ættu lesendur sérstaklega að svipast eftir nýjum sérútgáfum í Riviera-línunni. Annars vegar Riviera 10827 með svartri og hvítri skífu, sem hefur vísan til 6. áratugarins, og hins vegar Riviera 10828 með gulri skífu sem vísar til fyrstu Riviera-úranna. Hvort síðarnefnda úrið verður fáanlegt á Íslandi er reyndar erfitt að segja til um með vissu því að framleiðslan var takmörkuð við 73 stykki.
Baume & Mercier rann inn í Richemont árið 1988 og er ekki úr vegi að minna stuttlega á nokkur skemmtileg ný úr sem hafa komið frá þeirri fjölskyldu á undanförnum mánuðum.
Fyrst verður að nefna tvær splunkunýjar útfærslur af Overseas-úrinu frá Vacheron Constantin. Um er að ræða „Perpetual Calendar Ultra-Thin“, annars vegar úr rósagulli með gylltri skífu og hins vegar úr hvítagulli með vínrauðri skífu. Þunna útgáfan af Overseas er alveg hreint ómótstæðileg og gullúrið er algjör bomba – en það er verðmiðinn sömuleiðis, eða sléttir 115.000 frankar.
Þá var IWC að bæta við tveimur skemmtilegum litum í TOP GUN-línunni; annars vegar í blágrænu úri og hins vegar ljósbrúnu. Það er alltaf gaman þegar fínu úrsmiðirnir bregða á leik með liti með svona afdráttarlausum hætti, og hér höfum við gripi sem myndu heldur betur lífga upp á úrasafnið.
Eins var Piaget að svipta hulunni af grænum, gylltum og örþunnum Altiplano 910P. Þetta hárfína úr er ekki nema 4,3 mm að þykkt, smíðað úr sterkri kóbaltblöndu, en gangverkið er galopið listaverk og verkfræðiundur, og kostar gripurinn hér um bil 39.000 evrur.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
