Fjölbreyttur hópur fjárfesta lagði félaginu Fly Play hf., rekstrarfélagi flugfélagsins Play, til fjármögnun í formi veðtryggðrar breytanlegrar skuldabréfaútgáfu 26. ágúst, segir hópurinn frá í tilkynningu þar sem enn fremur kemur fram að tilgangur fjármögnunarinnar hafi verið að treysta lausafjárstöðu félagsins á meðan umbreyting viðskiptalíkans þess stæði yfir.
„Ekki fór betur en svo að fyrir viku síðan stöðvaði flugfélagið Fly Play hf. starfsemi sína, sem var mikið reiðarslag fyrir alla sem tengdust félaginu,“ segir í tilkynningu fjárfestanna.
Skuldabréfaeigendur hafi gengið að veðum sínum í kjölfar tilkynningar flugfélagsins um gjaldþrot á mánudaginn var og hefðu þeir síðan lagt nótt við dag í vinnu við að lágmarka tjón og hámarka virði þeirra eigna sem gengið hafi verið að í samræmi við lög og reglur.
„Slíkt verkefni er bæði erfitt og flókið og alls óljóst hvort það muni á endanum skila einhverju til veðhafa,“ skrifa tilkynnendur aukinheldur, „lögð er áhersla á að kappkosta að tryggja sem besta niðurstöðu fyrir alla hagsmunaaðila. Þá er rík ástæða til að taka fram að fyrrum dótturfélag Fly Play hf. á Möltu er ekki með neina gilda flugvélaleigusamninga.“
Klykkja fjárfestar út með því að skuldabréfaeigendur séu á meðal stærstu kröfuhafa þrotabús Fly Play hf. og stefni þeir sem slíkir á að eiga í góðu samstarfi við skiptastjóra enda hagur allra að hámarka virði eigna búsins að þeirra sögn.