Íslandsbanki hefur samrunaviðræður við Skaga

Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka, verður bankastjóri sameinaða félags
Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka, verður bankastjóri sameinaða félags mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórnir Íslandsbanka hf. og Skaga hf.  hafa samþykkt að hefja formlegar samrunaviðræður milli félaganna og hefur skilmálaskjal þess efnis verið undirritað af hálfu beggja aðila.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Þar kemur fram að lagt sé upp með að starfsemi Skaga verði sameinuð Íslandsbanka og að hluthafar Skaga eignist samtals 323.859.440 nýja hluti í Íslandsbanka í skiptum fyrir hlutabréf sín í Skaga, eða sem svarar til um 15% útgefins hlutafjár í sameinuðu félagi.

Bankastjóri hins sameinaða félags verður Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka.

Í samstæðu Skaga eru þrjú sjálfstæð dótturfélög; VÍS tryggingar, Fossar fjárfestingarbanki og Íslensk verðbréf.

„Samrunaaðilar sjá fjölmörg tækifæri í sameiningu félaganna. Báðir aðilar hafa lýst vilja sínum til ytri vaxtar og telja að ýmis tækifæri felist í samþættingu á fjármálamarkaði, sem geti skapað veruleg verðmæti fyrir sameinað félag, viðskiptavini þess og aðra hagsmunaaðila.

Til staðar eru mörg tækifæri í aukinni samþættingu bankaþjónustu til einstaklinga og fyrirtækja við tryggingastarfsemi, með það að leiðarljósi að auka gæði og hagkvæmni í þjónustu. Þá búa bæði félög yfir öflugri eignastýringu, sem myndar grunn að áframhaldandi sókn á þeim markaði. Til viðbótar telur bankinn að með samruna við Skaga styrkist enn frekar leiðandi staða Íslandsbanka í fjárfestingarbankastarfsemi. Þá er ávinningur talinn felast í samlegð af samrunanum, en bein árleg samlegð er metin á bilinu 1,8-2,4 milljarðar króna,“ segir í tilkynningunni.

Lagt er upp með að viðræður fari fram á næstu vikum og munu aðilar upplýsa um framvindu þeirra í samræmi við lögbundna upplýsingaskyldu félaganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK