Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. október.
Það er ekki á hverjum degi að rótgróið svissneskt merki bætist við úraflóruna á Íslandi, en núna er unnið að komu Baume et Mercier í verslun Michelsen og ráðgert að merkið flytji þar formlega inn 1. nóvember næstkomandi.
Finn Annmark er tengiliður svissneska framleiðandans við Ísland en hann á og rekur fyrirtækið Product Line AS sem er umboðsaðili Baume et Mercier á Norðurlöndum og Eystrasaltslöndunum. Fyrirtæki Finns vinnur náið með lúxusvörurisanum Richemont, sem Baume et Mercier tilheyrir, en hjá Richemont eiga líka heima merki á borð við Cartier, IWC, Montblanc, Vacheron Constantin og Dunhill.
Saga Baume et Mercier spannar 195 ár en fyrirtækið öðlaðist snemma orðspor fyrir afar nákvæm og áreiðanleg gangverk. Hönnunin er íhaldssöm og nostrað við hvert úr, en sum flóknustu og vönduðustu úrin kalla á svo mikla vinnu að aðeins er hægt að framleiða þau í sárafáum eintökum ár hvert.
Það er gaman að rýna í þróunina á úramarkaðinum með manni sem lifir þar og hrærist en Finn hefur starfað í þessum bransa í marga áratugi. Hann tekur undir að framleiðendur standi frammi fyrir nýjum áskorunum um þessar mundir en bætir við að það sé ekki í fyrsta skipti sem ytri þættir hrista rækilega upp í greininni. „Það er skemmst að minnast hvernig úrsmiðir þurftu að aðlagast þegar fyrstu kvarsúrin litu dagsins ljós. Næsta stóra vandamálið var að fölsuð úr tóku að birtast á markaðinum og loks mörkuðu snjallsímarnir kaflaskil enda með innbyggða klukku.“
Greinin brást við þessum áskorunum með ýmsum hætti, og lagði t.d. áherslu á mikilvægi handverks og gæða og undirstrikaði að fallegt armbandsúr mælir ekki aðeins gang tímans: „Sumir hafa lýst komu snjallúra sem enn einni áskoruninni en reynslan hefur sýnt okkur að þar er annars konar vara á ferð; rétt eins og fólk skiptir reglulega um farsíma þá skiptir það reglulega um snjallúr, á meðan vandað svissneskt úr getur verið förunautur fyrir lífstíð og speglar um leið lífsstíl og persónuleika eigandans,“ segir Finn.
En hvað er að gerast í bransanum í dag? Þaðan berast misvísandi sögur og greina sumir merki um verulegan samdrátt.
Finn segir allan gang á því hvaða upplýsingar liggi á lausu og að greinendur verði einkum að styðjast við útflutningstölur greinarinnar í heild sinni. „En sú mæling segir ekki alla söguna og það er gott að muna að margir framleiðendur stýra dreifingunni sjálfir og selja úrin í eigin verslunum. Það hversu mörg úr eru flutt úr landi segir því ekki endilega til um hversu mörg úr rata í hendur neytenda það árið.“
Lengi var mikill vöxtur í Asíu en þar hefur salan núna dregist saman og munar ekki síst um niðursveiflu í Kína. Að sögn Finns er minnkuð sala í Kína bæði rakin til þess að hægt hefur á efnahagsvexti þar í landi, og þá réðust kínversk stjórnvöld í mikla herferð til að uppræta spillingu og bitnaði það á sölu armbandsúra og annars lúxusvarnings sem þótti heppileg gjöf handa embættismönnum og stjórnendum sem þurfti að mýkja upp.
Armbandsúr seldust líka vel í kórónuveirufaraldrinum, og var eftir því tekið hversu greiðlega gekk að færa söluna yfir á netið á meðan illmögulegt var að taka á móti viðskiptavinum í verslunum. Finn segir framleiðendur hafa bundið miklar vonir við netverslun, en sá vöxtur sem varð í faraldrinum hafi síðan gengið að miklu leyti til baka þegar horfið var frá smitvörnum. Kom á daginn að hvað úraviðskipti snertir vill fólk helst fá að handfjatla gripinn áður en gengið er frá kaupunum.
„Þróun efnahagsmála hefur síðan vitaskuld áhrif, en áhrifin virðast misjöfn eftir því hvaða tekjuhóp er um að ræða. Fyrir fólk með meðaltekjur leiðir vaxandi svartsýni til þess að fólk hugsar sig tvisvar um áður en það kaupir sér úr, og það getur skipt máli hvort úrið sem það langar í kostar nokkur hundruð eða nokkur þúsund evrum meira eða minna í dag en það gerði fyrir ári. Fyrir hátekjufólkið virðast efnahagshorfurnar hafa minna að segja, og við sjáum því ekki eins mikla næmni hjá kaupendum í efstu verðflokkunum.“
Markaðurinn náði greinilega miklu flugi í kórónuveirufaraldrinum og sást það m.a. á því að biðlistar framleiðenda lengdust og verðin á notuðum úrum ruku upp. Nú herma fregnir að biðlistar séu víða að styttast og mikið loft búið að tæmast úr bólunni sem myndaðist á markaðinum fyrir notuð úr. Gæti það kannski verið að markaðurinn sé að mettast?
Finn segir að vissulega séu takmörk fyrir því hversu mörg armbandsúr venjulegt fólk gæti hugsað sér að eignast, og það geti vel verið að margir eigi nú þegar draumaúrið og liggi ekki á að stækka hjá sér safnið: „En með hverri nýrri kynslóð bætast við nýir viðskiptavinir, og víða er rík hefð fyrir því að gefa ungu fólki veglegt úr á mikilvægum tímamótum í lífinu. Á Norðurlöndunum vill fólk t.d. gjarnan gefa gjöf sem er vegleg og mun fylgja þiggjandanum um langt skeið s.s. þegar ungmenni fermist eða útskrifast frá mennta- eða háskóla. Fólk sem þegar er búið að kaupa gott úr fyrir sig heldur því áfram að kaupa hágæðaúr, nema í þetta skiptið fyrir börn sín og barnabörn.“
Framleiðendum virðist líka lagið að finna nýja vaxtarmarkaði, og í löndum þar sem hagsæld er á uppleið er næsta víst að eftirspurnin eftir fyrsta flokks armbandsúrum á eftir að aukast. „Fyrirtækin í greininni selja úrin sín um allan heim, og þegar það er niðursveifla á einum stað er örugglega uppsveifla einhvers staðar annars staðar. Kína hefur verið að gefa eftir en á móti hefur komið að í Japan hefur vöxturinn mælst í tveggja stafa tölu allt þar til í fyrra – og núna sjáum við Indland vera að koma inn af krafti.“
Það kom svissneskum úrsmiðum í opna skjöldu þegar Donald Trump tilkynnti á dögunum að 39% tollur yrði lagður á svissneskan varning. Ekkert virðist ganga að fá Trump til að lækka gjaldið og er óljóst hvernig úrageirinn mun bregðast við til lengri tíma litið. Áfallið er ekki lítið því að Bandaríkjamarkaður hefur tekið við u.þ.b. fimmta hverju úri sem smíðað er í Sviss.
Finn segir sumum þykja réttast að bandarískir neytendur borgi einfaldlega tollinn í formi töluvert hærra verðs á úrum þar í landi, á meðan öðrum þykir ljóst að það myndi ekki ganga að selja úr á miklu hærra verði þar en annars staðar. „Sumir virðast vera að taka kostnaðinn á sig, eða deila honum með milliliðum, og geta mögulega reynt að vega upp á móti tapinu með því að hækka verðin lítils háttar á öllum öðrum mörkuðum.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
