Gjaldþrot flugfélagsins Play mun koma til með að auka atvinnuleysi hér á landi, en áhrif þess á hagvöxt verða takmörkuð. Þetta segir Kári S. Friðriksson, hagfræðingur hjá Arion greiningu, í samtali við ViðskiptaMoggann.
Kári bendir á að það hafi að minnsta kosti 450 manns misst vinnuna við fall félagsins þegar afleidd störf eru tekin með.
„Með þeirri viðbót gæti mælt atvinnuleysi farið úr 3,5% í 4%,“ segir hann. Hluti starfsmanna gæti þó fundið sér nýtt starf fljótlega og dvalið stutt á atvinnuleysisskrá.
Arion greining hafði áður gert ráð fyrir að atvinnuleysi myndi aukast á næsta ári, meðal annars vegna samdráttar í útflutningsgreinum. Starfslok Play bætast nú við þá mynd. Ný spá greiningardeildarinnar gerir ráð fyrir 4,3% atvinnuleysi á næsta ári, á meðan Seðlabankinn spáir 3,5%.
„Við erum aðeins svartsýnni en Seðlabankinn á þróun atvinnuleysis,“ segir Kári.
Í ágústspá bankans var gert ráð fyrir 4,0% atvinnuleysi á þessu ári og að það myndi minnka á næsta ári, en Arion greining sér frekar áframhaldandi aukningu.
Í nýútgefinni Hagspá Arion kemur fram að á næsta ári sé útlit fyrir að innflutningur dragist saman, sem skýrist fyrst og fremst af minni fjárfestingu áðurnefndra gagnavera, og að utanríkisverslun leggist á sveif með einkaneyslunni.
„Þó útlit sé fyrir að einkaneyslan verði dráttarklár hagvaxtar út spátímann eru horfurnar þokukenndari en oft áður, þar sem verðbólgan hefur reynst treg í taumi og vextir því haldist háir lengur en áður var spáð. Áhrif þessa á innlenda eftirspurn eru ekki enn komin fram að fullu, en sýnileg merki kólnunar er að finna bæði á vinnumarkaði og húsnæðismarkaði,“ segir í Hagspánni.
Hvað varðar hagvöxt telur Kári að gjaldþrot Play hafi lítil áhrif. Félagið hafi þegar dregið saman seglin og aðeins átt fjórar vélar að fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli í vetur.
„Play var meira að flytja Íslendinga út heldur en að flytja ferðamenn til landsins. Því eru áhrifin á landsframleiðslu fremur lítil,“ segir hann.
Arion greining spáir engu að síður hógværum hagvexti á þessu ári, einungis 0,9%, samanborið við 2,3% í spá Seðlabankans. Munurinn skýrist fyrst og fremst af nýjum landsframleiðslutölum fyrir annan ársfjórðung sem birtust eftir að bankinn gaf út sína spá.
Í heildina telur Arion greining að íslenskt hagkerfi muni halda áfram að vaxa næstu tvö ár, í takt við spár Seðlabankans, en að vinnumarkaðurinn standi frammi fyrir meiri áskorunum en áður var talið.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
