Heildarsamlegð sem greiningarfyrirtækið Akkur hefur metið vegna samruna Íslandsbanka og Skaga er metin á 2 milljarða króna, sem er í samræmi við það sem fram kom í tilkynningu félaganna um að þau væntu þess að samlegð yrði á bilinu 1,8-2,4 milljarðar króna.
Íslandsbanki og Skagi tilkynntu á dögunum að stjórnir félaganna hefðu komist að samkomulagi um að hefja formlegar samrunaviðræður milli félaganna. Hluthafar Skaga munu eignast tæplega 324 milljónir nýrra hluta í Íslandsbanka í skiptum fyrir hlut sinn í Skaga og munu þannig eiga um 15% hlutafjár í sameinuðu félagi.
Í mati Akkurs fyrir 2025 er gert ráð fyrir kostnaði vegna samrunaviðræðna upp á 200 milljónir króna og fyrir 2026 er gert ráð fyrir „neikvæðri samlegð“ í þóknanatekjum upp á 500 milljónir króna en um 1.000 milljónir króna á árinu 2027.
Fram kemur að kostnaðarsamlegð sé metin 2.500 milljónir króna eða um 60% af kostnaði Skaga fyrir utan rekstrarkostnað VÍS. Einnig er gert ráð fyrir samtals 500 milljóna króna samlegð í vaxtatekjum og í tryggingastarfsemi. „Samlegð í hreinum vaxtatekjum er fyrst og fremst vegna hagstæðari fjármögnunar Íslandsbanka umfram Fossa,“ segir í greiningunni.
„Við erum sannarlega að upplifa eitt mesta umbrotatímabil í sögu íslensks fjármálamarkaðar um árabil,“ segir Jóel Ísak Jóelsson, greinandi hjá Reitun (IFS greining), um nýlegar fréttir af því að Skagi og Íslandsbanki hafi hafið sameiningarviðræður.
Hann bendir á að þróunin sé rökrétt framhald af breytingum síðustu ára. „Við höfum séð smærri aðila sameinast á undanförnum árum og fjármálastofnanir leita í tryggingafélögin. TM fór inn í Landsbankann, Kvika er að sameinast Arion og nú Skagi og Íslandsbanki,“ segir Jóel.
Hann segir mikil tækifæri fólgin í sameiningum. „Tækifærin eru fjölmörg þegar kemur að sameiningu í bankastarfsemi. Þetta er eðlilegt framhald af samstarfi sem hefur þegar átt sér stað í gegnum VÍS og má líta á það eftir á sem einskonar reynslutíma fyrir samrunann og eru mikil tækifæri til staðar í krosssölu þar á milli. Sameinað félag verður það stærsta í miðlun á skuldabréfa- og hlutabréfamörkuðum hér á landi,“ segir Jóel.
„Íslandsbanki hefur hingað til ekki spilað í sömu deild og Arion á tilteknum sviðum. Nú gæti hann hins vegar gert það. Bankinn verður kominn með tryggingastarfsemi undir sinn hatt sem nýja tekjustoð líkt og samkeppnisaðilarnir. Auk þess styrkir bankinn fjárfestingarbankastarfsemina og eignastýringuna við samrunann. Einnig ættu fjármunatekjur bankans að styrkjast vegna verðbréfasafns VÍS.“
Samkeppnin muni þó ekki hverfa, heldur taki hún á sig nýja mynd.
„Þróunin hefur lengi verið í þá átt að fá stærri einingar á markaðinn til að bregðast við þungum kröfum og kostnaði. Þetta eru áhugaverðir tímar og ákveðin uppstokkun.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
