Dýrkeypt ákvörðun Seðlabankans að mati Samtaka iðnaðarins

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynnti í morgun að stýrivextir verði áfram óbreyttir í 7,5 prósentum. Samtök iðnaðarins (SI) gagnrýna ákvörðunina harðlega og segja að aðhaldsstig peningastefnunnar sé orðið of mikið miðað við stöðu efnahagslífsins. Hátt vaxtastig sé orðið dýrkeypt fyrir samfélagið og hafi nú þegar neikvæð áhrif á þróun atvinnulífs og iðnaðar.

SI benda á að núverandi vaxtastig sé orðið þungbært fyrir bæði heimili og fyrirtæki, sem sjáist í hægari hagvexti og auknu atvinnuleysi.

SI vekja sérstaka athygli á versnandi stöðu í byggingariðnaði, þar sem merki um samdrátt eru orðin áberandi. Háir vextir hafa dregið úr uppbyggingu íbúða og minnkað eftirspurn eftir nýju húsnæði. Þetta hefur leitt til minni veltu og fækkunar starfa í greininni. Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar hefur starfsfólki fækkað í öllum helstu greinum iðnaðar.

Verðbólgan mælist nú 4,1% og Seðlabankinn bendir á að launahækkanir og ójafnvægi á húsnæðismarkaði séu helstu drifkraftar hennar. SI taka undir með Seðlabankanum að peningastefnan sé ekki rétta tækið til að takast á við kerfislægan vanda á húsnæðismarkaði. „Háir vextir fjölga ekki lóðum, bæta ekki skipulagsferla né einfalda regluverk,“ segir í umsögn samtakanna. Þvert á móti hægi þeir á uppbyggingu og auki hættuna á húsnæðisskorti í næstu uppsveiflu.

Í umsögn sinni um fjárlagafrumvarp næsta árs leggja SI áherslu á að ríkisfjármálin þurfi að styðja betur við markmið Seðlabankans um að ná verðbólgu niður í 2,5%. Með frekara aðhaldi í ríkisfjármálum mætti draga úr verðbólgu og skapa svigrúm til vaxtalækkana án þess að valda harðri lendingu í hagkerfinu.

Samtökin hvetja til samstillts átaks stjórnvalda, Seðlabankans, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins til að ná niður verðbólgu með sem minnstum kostnaði fyrir atvinnulífið og samfélagið í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK