Í dag, 9. október, mun svissneska upplýsingatæknifyrirtækið Umanitek, í samvinnu við íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Videntifier, sem ber kennsl á myndefni á netinu, setja í loftið nýtt varnartól, The Guardian Agent, eða Varðliðann, í lauslegri íslenskri snörun. Með honum getur fólk og fyrirtæki kannað hvort myndefni í þeirra eigu hafi á einhvern hátt verið misnotað á netinu með gervigreindarvinnslu, stuldi, djúpfölsun eða öðru slíku.
Chris Rynning stjórnarformaður Umanitek og framkvæmdastjóri hjá AMYP, hluta af skrifstofu Piech/Porsche-fjölskyldunnar sem stýrir eignum hennar, segir að fjölskyldan hafi snemma farið að horfa til fjárfestinga í gervigreind. Hins vegar hafi hún ákveðið að fjárfesta ekki í bandaríska gervigreindarfyrirtækinu Open AI þegar það bauðst. Fjölskyldan vildi ekki „fjármagna endalok mannkyns“, eins og Rynning orðar það í samtali við Morgunblaðið.
Piech/Porsche-fjölskyldan er sú sjöunda ríkasta í Þýskalandi með eignir upp á 66,5 milljarða evra, jafnvirði tæpra 9.500 milljarða íslenskra króna. Fjölskyldan hefur meirihlutavald í þýska bílarisanum Volkswagen, þeim næsttekjuhæsta í heimi.
Í staðinn fyrir að setja fé í gervigreindina var ákveðið að fjárfesta í búnaði til að verjast ofríki þessarar nýju tækni og þar með reyna að draga úr hættunni sem mannkyninu stafar af henni.
Rynning segir að mannfólkið sé því miður nú þegar búið að tapa fyrsta bardaganum, yfirgangi algrímsins sem stýrir samfélagsmiðlunum.
Hann segir að nota verði vélar til að berjast við vélar.
Það hafi því verið í takt við stefnu AMYP að kaupa sig inn í Umanitek, sem er aðeins sex mánaða gamalt.
Nafnið er, eins og Rynning útskýrir, í raun sambland af og dregið af orðunum Humanity og Tek, eða tækni.
Rynning segir að Umanitek sé nú þegar búið að afla fjármagns frá englafjárfestum í Evrópu, Asíu og San Francisco í Bandaríkjunum. „Þó að við séum ung þá er tæknin okkar nú þegar orðin þroskuð og við erum að skala okkur hratt upp, meðal annars með samstarfi við aðila eins og Videntifier.“
Rynning hrósar tækni Videntifier og segir félagið leiðandi á sínu sviði alþjóðlega. „Kerfið okkar vinnur allan sólarhringinn, allt árið um kring við að skanna netið til að finna líkindi.“
Hann segir að ef myndefni finnst sem notandi hefur ekki samþykkt fái hann tilkynningu og geti með hjálp Umanitek óskað eftir að efnið verði tekið af netinu. Ef það dugar ekki hjálpar Umanitek til við undirbúning lögsóknar. „Umanitek og Videntifier passa mjög vel saman í þessu verkefni og Ísland er frábær prufumarkaður.“
Rynning segir það færast í vöxt að myndefni sé tekið ófrjálsri hendi og notað til að framleiða klámefni. Stjórnarformaðurinn segir Varðliðann verða frían fyrsta kastið til að auðvelda fólki að prófa. „Það er nú þegar kominn biðlisti af spenntum notendum.“
Hann áætlar að áskrift að Varðliðanum muni kosta 20-30 evrur á mánuði og fólk sé þá vel varið um allan heim.
Að lokum segir Rynning að hann hlakki til að koma til landsins og sýna fólki Varðliðann.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
