Eðalfiskur, laxavinnsla í Borgarnesi, hefur skipt um nafn og heitir nú Borg Salmon. Fyrirtækið er í eigu Eðalfangs sem einnig er móðurfélag matvælafyrirtækjanna Norðanfisks á Akranesi og 101 Seafood.
Norðanfiskur vinnur aðallega afurðir úr hvítfiski en 101 Seafood flytur inn humar m.a.
Hinrik Örn Bjarnason framkvæmdastjóri Eðalfangs og Andri Gunnarsson stjórnarformaður segja í samtali við ViðskiptaMoggann að nú verði auðveldara fyrir útlendinga að bera fram nafn Eðalfisks en Borg Salmon sækir í síauknum mæli á alþjóðamarkað. „Við vildum hafa ákveðna Íslandstengingu í nafninu. Það eykur verðmæti vörunnar,“ segir Hinrik.
Nafnið er, eins og þeir Andri og Hinrik útskýra, dregið af staðsetningu verksmiðju Borgar Salmon í Borgarnesi, nálægt Borg, heimkynnum landnámsmannsins Skalla-Gríms og sonar hans Egils.
Áætluð heildarvelta Eðalfangs í ár er 6,5 milljarðar. Þrír milljarðar koma úr rekstri Norðanfisks og þrír frá Borg Salmon. 500 m.kr. koma síðan frá 101 Seafood sem er leiðandi í innflutningi á humri til Íslands auk þess að sinna ýmsum sérhæfðum verkefnum tengdum fiski, bæði í innflutningi og útflutningi.
101 Seafood bættist við samstæðuna haustið 2022.
Hinrik segir að Norðanfiskur muni skila jákvæðri rekstrarafkomu á þessu ári, fjórða árið í röð. Þá segir hann að tekjur Borgar Salmon hafi sexfaldast frá því fyrirtækið kom inn í samstæðuna árið 2021.
Sagan hófst þegar hópur fjárfesta af Akranesi ásamt Fiskibeini; þeim Andra, Gesti Breiðfjörð Gestssyni og Engilberti Hafsteinssyni, keyptu Norðanfisk um mitt ár 2020.
Spurður nánar um forsöguna segir Andri að hann og viðskiptafélagar hans hafi árið 2021 farið að velta framtíð laxeldisins fyrir sér. „Við sannfærðumst um að það yrði pláss fyrir aðila sem myndi einbeita sér að markaðssetningu og fullvinnslu afurðanna.“
Hann bætir við að Borg Salmon og Norðanfiskur hafi áður en nýir eigendur komu að félögunum eingöngu framleitt fyrir innanlandsmarkað. „Viðskiptahugmyndin snerist um að taka þátt í vexti eldisins með því að búa til og byggja upp traust viðskiptasambönd fyrir unnar afurðir.“
Eins og Hinrik útskýrir kaupir Borg Salmon hráefni frá öllum helstu laxeldisfyrirtækjum landsins, Arnarlaxi, Kaldvík, Arctic Fish, First Water, Háafelli og Samherja.
Hann segir að árið 2024 hafi Borg Salmon framleitt vörur úr 1.200 tonnum af laxi fyrir innlendan og erlendan markað. Stefnt er að 3.000 tonna vöruframleiðslu í Borgarnesi í ár.
„Framleiðslugeta Eðalfisks er 6.000 tonn á ári. Með annarri vakt og stækkunarmöguleikum á lóð félagsins sjáum við fram á að geta framleitt allt að 10-12 þúsund tonn á ári,“ útskýrir Andri.
Félagið er með einu sérhæfðu laxavinnsluna á Íslandi sem þýðir að það framleiðir og selur fullunna vöru beint í búðarborðið. Flestir aðrir útflytjendur senda fiskinn óunninn í gámum til vinnslu erlendis.
Hinrik segir gríðarlega mikil tækifæri blasa við í laxeldinu. „Það er um 45 þúsund tonnum af laxi slátrað á Íslandi. Það er mikil gerjun í geiranum. Menn sjá fyrir sér að í fyllingu tímans verði framleidd 150-200 þúsund tonn í landinu. Það liggja miklir möguleikar í að gera meira verðmæti úr vörunni hér heima í stað þess að selja fiskinn heilan úr landi.“
Hinrik segir að 95% alls lax sem framleiddur er í landinu séu seld heil úr landi.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
