Innherji er skoðanadálkur ViðskiptaMoggans.
Nokkur umræða hefur skapast í kjölfar málflutnings í Hæstarétti í einu af svonefndum vaxtamálum, þar sem lántakar hafa höfðað mál gegn Íslandsbanka. Málið var endurflutt 16. september og er niðurstöðu sjö manna skipaðs hæstaréttar að vænta nú í október.
Deilt er um hvort bankinn hafi uppfyllt skilyrði laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda, þegar vöxtum var breytt, og hvort upplýsingagjöf hafi verið skýr og sanngjörn. Lögin byggjast á tilskipunum Evrópusambandsins sem leggja ríka áherslu á gagnsæi og skiljanleika skilmála, og því ræðst nú hvort Hæstiréttur túlkar málið út frá íslenskum lögum eða beinum ákvæðum tilskipunarinnar.
EFTA-dómstóllinn gaf í maí í fyrra ráðgefandi álit þar sem fram kemur að breytilegir vaxtaskilmálar þurfi að vera svo skýrir að meðalneytandi geti áttað sig á aðferðinni við breytingu vaxta. Ef Hæstiréttur tekur undir þau sjónarmið gætu dómarnir haft víðtæk áhrif, ekki aðeins fyrir bankana heldur einnig fyrir íslenska ríkið. Bent er á að ef tilskipunin hefur ekki verið rétt innleidd í landsrétt gæti ríkið orðið skaðabótaskylt gagnvart neytendum.
Alexander Jensen Hjálmarsson hjá greiningarfyrirtækinu Akkri metur mestar líkur á að bankarnir verði sýknaðir en telur jafnframt að tap, jafnvel að hluta, gæti haft veruleg áhrif á eigin fé þeirra. Í síðustu uppgjörum hefur Arion banki metið hugsanleg áhrif slíks dóms á bilinu 17 til 24 milljarðar króna, sem jafngildir 8-12% af eigin fé hans. Eigið fé bankans nam um 202 milljörðum króna í lok annars ársfjórðungs. Hjá Íslandsbanka nam eigið fé 224,7 milljörðum króna á sama tíma og möguleg áhrif því á bilinu 9-10%, miðað við það viðmið sem þeir hafa sett fram, allt að 21 milljarði.
Markaðurinn hefur þegar verðlagt inn einhverja áhættu vegna málsins og hafa hlutabréf beggja banka lækkað á undanförnum vikum. Fjárfestar virðast taka mið af því að niðurstaðan gæti haft áhrif á alla fjármálageirann, þar sem sambærileg ákvæði um breytilega vexti hafa verið notuð víðar.
Þróun vaxta hefur jafnframt verið til umræðu í tengslum við málið. Þó að breytilegir vextir Íslandsbanka hafi lækkað minna en stýrivextir á síðustu lækkunartímabilum hafa þeir einnig hækkað minna þegar stýrivextir hafa verið að hækka. Álagið milli stýrivaxta og bankavaxta hefur því sveiflast, en ekki endilega á óhagstæðan hátt fyrir lántaka.
Málið hefur verið flutt með sérstakri áherslu á samspil landslaga og Evrópuréttar, og ljóst þykir að niðurstaðan muni setja fordæmi fyrir framkvæmd breytilegra vaxta hér á landi. Verði bankarnir dæmdir að hluta eða öllu leyti gætu áhrifin orðið veruleg, bæði fjárhagsleg og lagaleg, og hugsanlega opnað á skaðabótaábyrgð ríkisins vegna innleiðingar EES-reglna.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
