Stutt er síðan sýningarfyrirtækið Ritsýn stóð fyrir uppsetningu Sjávarútvegssýningarinnar 2025 sem var sú stærsta sem haldin hefur verið til þessa. Nú stendur Ritsýn fyrir nýrri sýningu sem einblínir á hvers kyns iðnað og er haldin í samstarfi við Samtök iðnaðarins. Sýningin verður opnuð kl. 14 í dag.
Í tilkynningu sem Ritsýn sendi frá sér er bent á að iðnaður á Íslandi nái yfir breitt svið og skapi um 41% af útflutningstekjum þjóðarinnar. Iðnaðarsýningunni 2025 sé ætlað að endurspegla þá breidd með því að tefla fram fjölbreyttum og áhugaverðum sýnendum sem höfði bæði til fagmanna og almennings.
Ólafur M. Jóhannesson framkvæmdastjóri Ritsýnar hefur komið að uppsetningu sambærilegra sýninga í 28 ár og er hokinn af reynslu. „Sýningin er mjög fjölbreytt í ár,“ segir Ólafur. „Þar er um að ræða mannvirki, orku, framleiðslu, hugverk og grænar lausnir, svo eitthvað sé nefnt. Þarna verða bæði stór og gróin fyrirtæki úr iðnaði en líka ný fyrirtæki sem eru að hasla sér völl og gætu orðið stór í framtíðinni, sem er mjög skemmtilegt,“ segir Ólafur.
Hann bætir við að samstarfið við Samtök iðnaðarins sé mjög gott en þar séu hvorki meira né minna en 1.700 fyrirtæki og félög sjálfstæðra atvinnurekenda. Munu mörg þeirra taka þátt í sýningunni. „Þarna koma blikksmiðir og ráðgjafar, verkfræðingar og arkitektar, dúklagningarmenn og veggfóðursmeistarar, húsasmiðir og jafnvel skrúðgarðyrkjumeistarar. Þetta er svo gríðarstórt.“
Ólafur segir að básarnir verði 140 í ár en sumir básar séu stórir og þar séu fleiri en einn saman um einn bás. Sýnendur séu því jafnvel mun fleiri. Iðnaðarsýningin verður opin í dag frá kl. 14-19, á morgun, föstudag, frá 10-18 og á laugardag frá 10-17.