Ingveldur Ásta Björnsdóttir hefur verið ráðin forstjóri Atlas verktaka og hóf störf í október.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Atlas, sem er alhliða verktakafyrirtæki með áralanga reynslu í byggingaframkvæmdum, endurbótum og mannvirkjagerð.
Atlas verktakar sinna heildarábyrgð á verkum frá undirbúningi til verkloka og þjónustar fyrirtæki, fasteigna- og leigufélög, stofnanir og sveitarfélög. Hjá félaginu eru hátt í 200 starfsmenn.
Ingveldur kemur til Atlas verktaka frá Reitum fasteignafélagi þar sem hún starfaði sem framkvæmdastjóri viðskiptavina og þjónustu. Hún hefur áður starfað hjá Íslandsstofu og Arionbanka og býr yfir víðtækri reynslu af fjármálum, rekstri og þjónustu.
Hún er viðskiptafræðingur og með meistaragráðu í verkefnastjórnun (MPM) frá Háskólanum í Reykjavík. Ingveldur situr í stjórnum Odda hf., Gadus nv. og Travel West ehf.
„Það er mér mikil ánægja að stíga inn í nýtt og spennandi hlutverk hjá Atlas verktökum. Hjá félaginu er mikil reynsla í byggingariðnaði og mörg áhugaverð verkefni framundan,“ er haft eftir Ingveldi í tilkynningunni.
