Er bílaframleiðandinn Tesla aftur kominn með byr í seglin eftir meint bakslag vegna samstarfs stofnandans, Elons Musks, og Donalds J. Trumps Bandaríkjaforseta?
Sölumaður Tesla í Prudential Center í Boston var allavega sannfærður um það þegar blaðamaður kom þar við síðustu helgi. Fullyrti sölumaðurinn að meint neikvæð áhrif þessa samstarfs væru að baki enda gleymdist pólitískt dægurþras fljótt.
Til upprifjunar leiddi Musk hagræðingarhóp sem ætlað var að finna leiðir til hagræðingar í ríkisrekstrinum í Bandaríkjunum og sporna þannig gegn frekari skuldasöfnun. Musk og Trump voru hinir ánægðustu með samstarfið til að byrja með, og jusu hvor annan lofi, en síðan komu upp stirðleikar í samskiptum Musks við starfslið forsetans og lauk því með brotthvarfi Musks í lok maímánaðar.
Ekki voru allir sáttir við samstarf Musks við Trump og komu ýmsir á framfæri mótmælum vegna þessa, meðal annars hér á Íslandi.
En skyldi sölumaðurinn hafa rétt fyrir sér?
Við fyrstu sýn virðist svo vera. Afhentir voru rúmlega 497 þúsund Tesla-bílar á þriðja ársfjórðungi og voru þar af rúmlega 481 þúsund af gerðinni Model 3 og Model Y. Frekari sundurliðun á sölu er ekki í boði af hálfu fyrirtækisins.
Samanlagt voru því afhentir rúmlega 34.200 fleiri bílar en á þriðja ársfjórðungi í fyrra, sem var besti þriðji ársfjórðungurinn í sögu fyrirtækisins hvað varðar sölu og afhendingu.
Þetta er hér sýnt á grafi og ná tölurnar aftur til ársins 2020 þegar Model Y kom á markað. Tölurnar eru unnar upp úr fréttatilkynningum Tesla fyrir hvern þessara ársfjórðunga.
Þessar tölur segja þó ekki alla söguna, því afsláttur vegna kaupa á rafbílum í Bandaríkjunum rann út í lok september og kann það að hafa ýtt undir söluna. Sé salan fyrstu þrjá ársfjórðunga í ár borin saman við sama tímabil í fyrra kemur hins vegar í ljós að salan hefur minnkað milli ára, farið úr tæplega 1,3 milljónum þetta tímabil í fyrra í rúmlega 1,2 milljónir í ár. Alls 76 þúsund færri eintök.
Musk hefur farið óvenjulegar leiðir í markaðssetningu og ekki hikað við að vera umdeildur.
Það er til dæmis rifjað upp í bókinni Hubris Maximus, eftir blaðamanninn Faiz Siddiqui, þegar Musk kallaði einn af mönnunum sem komu að björgun taílenskra drengja úr helli – raunir þeirra urðu að heimsfrétt – barnaníðinginn (e. pedo guy). Hafði þessi maður, Vernon Unsworth, þá sagt þá tillögu Musks óraunhæfa að bjarga drengjunum úr hellinum með því að senda þangað kafbát. Það væri almannatengslabragð hjá Musk.
Slapp Musk frá þessari tilhæfulausu ásökun, eins og öðrum úlfaþyt, en hann hefur átt sér dygga fylgismenn á netinu sem koma sínum manni til varnar, eins og Siddiqui rifjar upp. Það var því kannski ekki við öðru að búast en að Tesla myndi halda sínu striki eftir samstarfið við Trump. Eiga þeir það sameiginlegt Musk og Trump að halda athygli fólks í áreiti samtímans.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
