Eignaumsjón tekur við starfsemi Rekstrarumsjónar

Framkvæmdastjórar Rekstrarumsjónar, Hrafnhildur Guðjónsdóttir og Helga Soffía Guðjónsdóttir, undirrituðu samkomulagið …
Framkvæmdastjórar Rekstrarumsjónar, Hrafnhildur Guðjónsdóttir og Helga Soffía Guðjónsdóttir, undirrituðu samkomulagið ásamt Daníel Árnasyni, framkvæmdastjóra Eignaumsjónar.

Eignaumsjón hf. hefur fest kaup á Rekstrarumsjón ehf. og tekur við allri þjónustu við viðskiptavini félagsins í samræmi við gildandi þjónustusamninga um næstu mánaðamót.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Þar segir að miklar breytingar hafi orðið á þjónustu við hús- og rekstrarfélög frá því að Rekstrarumsjón tók til starfa fyrir átta árum. „Reksturinn er orðinn flóknari og umfangsmeiri en í upphafi og við stóðum frammi fyrir því að tæknivæða og sérhæfa reksturinn enn frekar með verulegum tilkostnaði til að geta sinnt viðskiptavinum okkar. Það er góð lausn að okkar mati að sameinast Eignaumsjón, sem er öflugur aðili á þessu sviði og tryggja þannig að áfram verði vel hugsað um okkar viðskiptavini og þeirra hagsmuni,“ segja þær Helga Soffía Guðjónsdóttir og Hrafnhildur Guðjónsdóttir, framkvæmdastjórar Rekstrarumsjónar, í tilkynningunni.

Fagna nýju starfsfólki

„Við fögnum nýju starfsfólki sem kemur til liðs við okkur og hlökkum til að takast á við þessa áskorun. Eignaumsjón hefur verið leiðandi í þjónustu við húsfélög og rekstrarfélög fjöleignarhúsa í 25 ár. Við ætlum að halda áfram að þróa þá þjónustu til að mæta enn betur sívaxandi þörfum eigenda fasteigna með skilvirkum tæknilausnum og öruggri og ábyrgri þjónustu,“ segir Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar í tilkynningunni.

Þar segir jafnframt að starfsemi Rekstrarumsjónar flytjist formlega til Eignaumsjónar 1. nóvember 2025. Starfsfólk Rekstrarumsjónar komi þá til starfa á skrifstofu Eignaumsjónar, sem tryggir að viðskiptavinir Rekstrarumsjónar njóta eftir sem áður þjónustu starfsfólks sem þekkir vel til þeirra mála og í samræmi við gildandi þjónustusamninga, eins og það er orðað í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK