Félag atvinnurekenda (FA) lýsir yfir ánægju með drög að frumvarpi dómsmálaráðherra, Þorbjargar S. Gunnlaugsdóttur, þar sem lagt er til að afnema lagaskyldu til jafnlaunavottunar og draga úr skýrsluskilum fyrirtækja um kynbundinn launamun. Félagið leggur þó til að skýrsluskylda nái aðeins til fyrirtækja með 100 starfsmenn eða fleiri, í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins.
Í frumvarpsdrögunum er horfið frá núverandi kröfu um innleiðingu jafnlaunakerfis. Í staðinn er lagt til að fyrirtæki skili gögnum til Jafnréttisstofu um starfaflokkun og launagreiningu, ásamt tímasettri áætlun um úrbætur ef þörf krefur. Þessi skýrslugjöf er sögð jafngilda jafnlaunastaðfestingu, sem nú stendur fyrirtækjum með 25–50 starfsmenn til boða. Jafnframt er lagt til að skýrsluskylda miðist við fyrirtæki með 50 starfsmenn eða fleiri, í stað 25 eins og nú er.
FA hefur lengi gagnrýnt núverandi löggjöf og telur jafnlaunavottunina íþyngjandi, tímafreka og kostnaðarsama fyrir minni og meðalstór fyrirtæki. Félagið bendir á að rannsóknir hafi ekki sýnt fram á bein tengsl milli vottunar og minnkunar á kynbundnum launamun.
FA varar við að með því að miða við 50 starfsmenn í frumvarpinu sé verið að „gullhúða“ tilskipunina, sem geti leitt til strangari krafna á íslensk fyrirtæki en sambærileg fyrirtæki innan EES.
„Slík gullhúðun skerðir samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs,“ segir í umsögn FA, sem vísar til skýrslu hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar þar sem lögð er áhersla á að forðast gullhúðun nema í undantekningartilvikum.
FA leggur því til að frumvarpið verði breytt þannig að skýrsluskylda nái aðeins til fyrirtækja með 100 starfsmenn eða fleiri. Með því myndi einnig sparast umtalsverður kostnaður hjá ríkinu, þar sem Jafnréttisstofa þyrfti færra starfsfólk til að yfirfara skýrslur.