Þegar ég heyri til fólks tala japönsku ljóma ég allur upp og geng jafnvel á hljóðið, þó að ég skilji varla stakt orð. Japanir eru nefnilega svo vandaðir og prúðir, og hvers manns hugljúfi. Það á við um alla þá sem vinna störf sem kalla á að umgangast fólk frá alls konar löndum, að þeir halda mest af öllu upp á Japanina.
Þar með er ekki sagt að Japanirnir láti vaða yfir sig eða séu einhvers konar einfeldningar sem hægt sé að ráðskast með. Margir hafa brennt sig á að halda að langlundargeð og tillitssemi Japanans geri hann að undirlægju. Þvert á móti getur Japaninn verið harður í horn að taka, ef til þess kemur, en hann kann þá list að forðast átök frekar en að sækjast eftir þeim, og reiða ekki til höggs án þess að skilja afleiðingarnar til fulls.
Til að hjálpa lesendum að skilja japönsku þjóðarsálina betur langar mig að segja þeim söguna af stríðsmanninum Kumagai Naozane.
Árið 1184, rúmlega hálfri öld áður en Sturlungar og sunnanmenn mættust í Örlygsstaðabardaga, var háð mikil orrusta í suðurhluta Japans, skammt vestur af Kobe, sem markaði endalok fimm ára baráttu á milli Taira-ættarinnar og Minamoto-ættarinnar um yfirráð yfir Japan. Með orrustunni lauk Heian-tímabilinu og Kamakura-tímabilið hófst, en atburðurinn markaði líka kaflaskil í lífi samúræjans Kumagai.
Að morgni dags heyrði Kumagai flaututóna berast úr herbúðum andstæðinganna og var ljóst að sá sem spilaði á flautuna gerði það af færni og listfengi fyrir vini jafnt sem óvini.
Kumagai barðist fyrir Minamoto-ættina og fór orrustan þeim í hag þrátt fyrir að vera með minni herafla, eða um 3.000 menn á móti 5.000. Fylkingarnar mættust niðri við sjávarmálið og þróaðist atburðarásin á þann veg að Kumagai elti uppi á hesti sínum stríðsmann sem reyndi að flýja á hestbaki. Kumagai tókst að fella manninn úr söðli og reif af honum hjálminn þar sem hann lá varnarlaus á bakinu.
Við honum blasti fögur ásjóna prinsins Taira no Atsumori.
Prinsinn var ekki nema sextán ára gamall, á svipuðum aldri og sonur Kumagais, með hvítan andlitsfarða og tennurnar litaðar svartar eins og sæmdi fríðleiksfólki þessa tímabils. Atsumori bað Kumagai að höggva án tafar, en rúmlega fertugur hermaðurinn hikaði og vildi hlífa unga prinsinum. En hann sá líka að fleiri menn úr liði Minamoto-ættarinnar voru á leiðinni og örlög prinsins væru ráðin. Kumagai afréð því að taka líf prinsins sjálfur, með loforði um að biðja fyrir sálu hans.
Hermaðurinn sem áður hafði verið óstöðvandi og óhikandi var í svo miklu tilfinningalegu uppnámi að hann vissi varla hvar hann væri. En hann þurfti að gera það sem gera þurfti, og sverðið geigaði ekki og hausinn flaug af prinsinum.
Það var þá sem Kumagai fann í eigum Atsumoris forláta flautu, og rann upp fyrir honum hver það var sem hafði spilað svona fallega um morguninn.
Kumagai varð aldrei samur eftir þetta og ákvað að breyta um stefnu í lífinu. Hann lagði frá sér herklæðin og vopnin og gerðist búddamunkur og trúboði. Sagan segir að Kumagai hafi eftirleiðis setið öfugt í söðli á hesti sínum, hvert sem hann fór, til að gera yfirbót fyrir syndir sínar.
Það verður að teljast nær öruggt að Sanae Takaichi verði næsti forsætisráðherra Japans. Takaichi vann óvæntan sigur í leiðtogakjöri Frjálslynda lýðræðisflokksins (LDP) á dögunum, og þrátt fyrir að hafa tapað fjölda þingsæta í síðustu kosningum er flokkurinn enn sá stærsti á japanska þinginu – bæði í neðri og efri deild – og strangt til tekið er það í höndum þingsins að kjósa nýjan forsætisráðherra til að taka við af Shigeru Ishiba. Forsætisráðherrakjörið hefur ekki alltaf gengið snurðulaust fyrir sig, en það þyrfti eitthvað mikið að gerast til að Takaichi verði ekki fyrsta konan til að gegna embættinu.
Japanski hlutabréfamarkaðurinn hefur þegar veitt Takaichi ágætis meðbyr, en Nikkei 225-vísitalan styrktist um 4,75% á mánudag og hefur aldrei verið hærri. Aftur á móti gaf japanska jenið ögn eftir þegar fréttist af sigri hennar og ávöxtunarkrafa japanskra ríkisskuldabréfa til 20 og 30 ára hækkaði lítillega á meðan 10 ára skuldabréfin bifuðust varla.
Viðbrögð markaða skýrast einkum af því að fjárfestar reikna með að Takaichi muni vilja örva hagkerfið af töluverðum krafti og að hún sé líkleg til að þrýsta á seðlabanka Japans um að slá hækkun stýrivaxta á frest eins og frekast er unnt. Takaichi fékk sitt pólitíska uppeldi undir væng Shinzos Abes og bendir flest til að hún muni vilja innleiða efnahagsstefnu sem fylgi svipaðri línu og Abe heitinn lagði á sínum tíma. Hún vill skapa réttan jarðveg fyrir hóflegar launahækkanir sem stuðlað gætu að aukinni eftirspurn og þannig framkallað hóflega verðbólgu og hóflega aukningu hagnaðar hjá japönskum fyrirtækjum.
Það vakti athygli greinenda að hlutabréfaverð fyrirtækja sem framleiða lyf, bíla og örgjörva tóku kipp þegar sigur Takaichi lá fyrir, en hergagnaframleiðendur nutu líka góðs af enda er reiknað með að útgjöld til hernaðarmála muni stóraukast með hana við völd. Eins og ég minntist lauslega á í pistli í október í fyrra er Takaichi nefnilega allt annað en blítt lítið lótusblóm: hún kemur úr röðum íhaldssömustu þingmanna LDP, vill efla japanska herinn og endurskoða ákvæði í japönsku stjórnarskránni sem strangt til tekið bannar Japan að halda úti herafla.
Sjónarmið Takaichi í þessum málaflokki, og sá hljómgrunnur sem þau njóta innan LDP, endurspegla m.a. vaxandi spennu í samskiptum við Kína, og hefur Takaichi viðrað þá skoðun að það kunni að vera besta leiðin til að tryggja varnir Japans að hafa getuna til að taka bækistöðvar óvinarins úr umferð ef á Japan er ráðist.
Jafnréttissinnar hljóta að gleðjast yfir kjöri Takaichi en enginn skyldi halda að Takaichi sé frjálslynd í skoðunum. Hún hefur t.d. verið andsnúin því að breyta lögum þannig að konur þurfi ekki lengur að breyta ættarnafni sínu þegar þær ganga í hjónaband, og þá hefur Takaichi ekki heldur viljað lögleiða hjónabönd samkynhneigðra, né tekur hún það til greina að opna fyrir þann möguleika að kona geti erft titil Japanskeisara.
Telja má Takaichi til tekna að hennar helsta fyrirmynd í stjórnmálum er Margaret Thatcher, og hittust þær eitt sinn stuttlega þegar Thatcher var löngu horfin af sviði stjórnmálanna. Takaichi hefur einmitt verið kölluð járnfrú Japans.
Þá skyldi enginn halda að Takaichi sé skraufþurr og tvívíður pólitíkus, en hún er með bíla- og mótorhjóladellu og var trommuleikari þungarokksbands á sínum yngri árum. Á Takaichi að hafa trommað af svo miklum krafti að hún braut hvern kjuðann á fætur öðrum og þurfti að hafa knippi tiltækt þegar hún spilaði til að eiga nokkra til vara.
Árið 2004 giftist Takaichi samflokksmanni sínum Taku Yamamoto og ættleiddi þrjú börn sem hann átti frá fyrra hjónabandi. Þau skildu 2017, en giftu sig aftur 2021. Fyrr á þessu ári lamaðist maðurinn hennar á hægri hlið líkamans eftir heilablóðfall og hefur Takaichi sinnt honum og hjúkrað samhliða pólitískum störfum sínum.
Takaichi mun fá tækifæri til að sanna sig strax á allra næstu vikum. Aðstæður í hagkerfinu eru krefjandi, á öllu von frá Kína og nýbúið að ljúka erfiðum tollasamningum við Bandaríkin, og þegar ljóst var að hún hafði unnið formannskjörið hafði Takaichi á orði að nú væri vinnan rétt að byrja og að koma þyrfti fjölda stefnumála í verk.
Í lok mánaðarins verður hún fulltrúi Japans á þingi APEC í Seúl þar sem tækifæri gefst til að ræða við Xi Jinping undir fjögur augu, og svo hyggst Trump heimsækja Japan áður en október er á enda.
Gaman verður að sjá hvernig fer á með þeim Trump og Takaichi, og er líklegt að þau séu á svipaðri bylgjulengd. Ekki skemmir fyrir að á 9. áratugnum bjó Takaichi í Bandaríkjunum og starfaði sem aðstoðarmaður Pat Schroeder, þeirrar stórmerkilegu þingkonu, og ber því örugglega ágætis skynbragð á bandarísk stjórnmál og hefur vald á enskri tungu – þó svo henni þyki betra að nota túlk þegar verið er að ræða mikilvæg mál.
Takaichi mun vafalaust taka mjög vel á móti Trump og forðast átök eins og Japana er siður. Hún er samt örugglega ekkert lamb að leika við, og Trump má vara sig ef Takaichi seilist eftir trommukjuðunum.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
